155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[19:09]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugaverð ræða hjá hv. þingmanni og gaman að fá hann um borð. Ég sé að hann hefur svo sem ekki breyst mikið síðan við hittumst síðast.

Mig langar aðeins að velta því upp að nú erum við með þessa þingsályktunartillögu um sjávarútvegsstefnu til ársins 2040 frá hæstv. matvælaráðherra þar sem hún er búin í andsvari fyrr í þessari umræðu að fara yfir það skýrt og skorinort hvað það er mikið í þessu plaggi sem tónar við stefnu VG. Þegar við erum að efla rannsóknir, þegar við erum að tala um sjálfbærni, þegar við erum að tala um jafnrétti — úr hvaða flokki heldur hv. þingmaður að þessi orðræða komi? Úr hvaða þingflokki heldur hv. þingmaður að þessi litlu hænuskref, sem hann nefnir að hafi verið tekin í sumar, hafi komið? Hæstv. ráðherra mælir hér fyrir máli sem er mikilvægt. Er það fullkomið? Væri það nákvæmlega svona ef VG hefði bara á sínum flokksráðsfundi samið þetta plagg? Nei, hugsanlega ekki. Við erum í samstarfi sem þarf auðvitað að vinna í til að koma málum í gegn. En mig langar að spyrja hv. þingmann að þessu: Úr hvaða þingflokki heldur hann að umræðan um sjálfbærni, verndun hafsins, jafnrétti og fleira komi, ef ekki beint úr stefnu VG?