155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[19:12]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er hvaðan þessi hænuskref koma. Ég held að ég verði að minna hv. þingmann á það að fyrrverandi matvælaráðherra tók risaskref í hina áttina, risaskref. Ég fór yfir það hér. Hæstv. ráðherra tók upp á því að einkavæða grásleppuna. Það sem er að gerast, m.a. á Patreksfirði, er að verið er að setja menn sem hafa stundað þar atvinnurekstur í gríðarlegan vanda. Þeir hafa verið að reka þar lítil fyrirtæki en fá engar veiðiheimildir eftir að þetta voðaverk var gert í sumar. Fyrir hvern var þetta? Kom það úr ranni Framsóknarflokksins, þetta frumvarp um að eyðileggja grásleppuveiðar og koma í veg fyrir að til verði grásleppukarlar í þorpunum í kringum landið? Nei, það upplýstist í umræðunni og hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson gekkst við því að hann hefði verið beðinn fyrir þetta frumvarp af hæstv. fyrrverandi matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. Ég held því miður að Vinstri grænir verði að horfast í augu við staðreyndirnar í þessu máli. Það er engin tilviljun, herra forseti, að varaþingmaður Vinstri grænna hafi sagt af sér eða sagt sig úr flokknum. Það er auðvitað vegna þess að við þá vinnu sem hefur verið í gangi á síðustu árum hefur ekkert, ekki neitt verið stuðst við t.d. fiskifræðinginn Bjarna Jónsson, þingmann Vinstri grænna, eða að mjög litlu leyti, við t.d. vinnuna í kringum Auðlindina okkar eða leitað eftir sérfræðiþekkingu frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Því miður var það ekki gert.