155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

sjávarútvegsstefna til ársins 2040.

233. mál
[19:16]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, jú, ég hef áhuga á Vinstri grænum og get upplýst hv. þingmann um það að ég hef meira að segja tekið þátt í starfi Vinstri grænna á sveitarstjórnarstigi. Það var bara mjög ánægjulegt. Ég hef áhuga á þessu pólitíska starfi eins og öðru en ég sá að það hentaði mér ekki, m.a. vegna stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum. Af því að spurt var um það ef ég væri einráður — hvað þarf að gera? Það þarf auðvitað að skoða ráðgjöfina, það þarf að auka veiðar. Ég er svo sammála hæstv. matvælaráðherra um það að handfæraveiðar geta ekki leitt til ofveiði. Þess vegna eru engin málefnaleg rök fyrir því að banna handfæraveiðar, hvað þá takmarkaðar handfæraveiðar eins og strandveiðarnar. Það er alveg ljóst að það er meira í pottinum bæði fyrir togskipin og afla almennt. Það segir einfaldlega sagan. Ef einhver vill fara yfir líffræðileg kennileiti þá get ég alveg upplýst um það að á meðan fiskur er hægvaxta eins og hann er núna þá er hann ekki ofveiddur heldur gefur það til kynna að það megi bæta í veiðarnar. Þetta er svo augljóst að hver og einn ætti að sjá þetta. Þetta sjá bændur, ef vöxturinn dregst saman er ekki hægt að bæta á í fjárhúsunum eða það er of lítill stabbi. Við erum hér með atvinnuveg sem hefur gríðarleg tækifæri. Það þarf að auka frelsið. Ég er stundum svo hissa á því, af því að maður sér Sjálfstæðismenn í hliðarsölum, að þeir skuli ekki taka þessa umræðu í staðinn fyrir að vera heldur í því að ýta strandveiðum og gera þetta allt mjög heft, reyna frekar að auka frelsið og hafa þetta skemmtilegra í sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið.