131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Símenntunarmiðstöðvar.

573. mál
[12:24]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem tóku til máls þótt ég harmi um leið að ekki sé búið að styrkja grundvöll símenntunarmiðstöðvanna. Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, að sprenging hefur orðið í starfsemi símenntunarmiðstöðvanna en samt er útlit fyrir það að draga verði saman á þeim svæðum þar sem þær eru kannski hvað best nýttar, eins og á Suðurnesjum og Suðurlandi.

Það er staðreynd að báðar þær símenntunarmiðstöðvar eru reknar með verulegum halla og að við ákvörðun framlaga til þessarar starfsemi, til þessara níu fræðslumiðstöðva, er meira hugsað um landfræðilega staðsetningu en það hlutverk sem þær gegna. Þannig hafa miðstöðvarnar á Vestfjörðum og Austurlandi fengið verulega miklu hærra framlag en aðrar miðstöðvar. Símenntunarmiðstöð Eyfirðinga, SÍMEY, fær sama framlag og Suðurnesin og Suðurland þó að þar fari ekki fram nein miðlun háskólanáms. Það sem skiptir verulegu máli núna og fyrir upphaf næsta námsárs hjá símenntunarmiðstöðvunum er að gengið verði frá þessum samningum í hlutfalli við þau verkefni sem miðstöðvarnar hafa en ekki landfræðilega legu þeirra og þann fjölda sem sækir nám á hverjum stað. Þetta er, eins og ég sagði áðan, einhver besta byggðaráðstöfun sem gerð hefur verið og hún er að frumkvæði Alþingis og fjárlaganefndar. Það er líka vegna þess að þingmenn sem hér eru, sérstaklega kannski þeir sem eru af landsbyggðinni, skilja þörfina fyrir öfluga starfsemi símenntunarmiðstöðva.