135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

fiskeldi.

530. mál
[16:41]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Fiskeldi á auðvitað fullan rétt á sér og fiskeldi á að geta gefið okkur auknar gjaldeyristekjur ef rétt er staðið að málum og rétt er haldið á hlutunum. Þegar við fórum á mikilli ferð í fiskeldi fyrir 20 árum, jafnvel 25 eða 30 árum, þá var það af miklum vanefnum og þekkingarleysi og það var ýmsu ábótavant í þeim vinnubrögðum.

En á ákveðnum stöðum, sérstaklega í Noregi og þá á ég við laxeldi þar, hefur fiskeldi samt skilað árangri og skapað gjaldeyristekjur og mikla atvinnu. Þetta er vandmeðfarið og það þarf að vanda til allra verka sem snúa að þessu og ekki hvað síst í sambandi við rannsóknir sem þurfa að vera miklu meiri í fiskeldi en hafa verið. Það þarf að rannsaka smitsjúkdóma og ýmislegt sem getur og hefur sett fyrirtæki sem hafa verið í fiskeldi á hausinn.

Ég veit ég ekki hvort það yrði til bóta eða einhver lausn að setja fiskeldi undir Fiskistofu, ég átta mig ekki á því, né heldur átta ég mig á því hvort á að færa til starfsfólk. En ráðherra getur auðvitað svarað því.

Áframeldi er auðvitað ágætt svo langt sem það nær en það getur líka verið hættulegt. Það þarf að veiða fiskinn smáan og það drepst oft mikið af honum og það eru ýmsir ókostir við áframeldi og ekki allt sem sýnist hvað það varðar. Það er meira að segja talað um að menn séu að veiða þorsk til áframeldis á besta tíma ársins, þorsk sem er kannski orðinn tíu kíló og þá er nú spurning hvað hann stækkar mikið í viðbót þó að hann sé kominn í kvíar.

Fiskeldi á að styrkja byggð og auka atvinnu. Það er eins og maður kannist við þetta úr einhverjum öðrum lögum. Ég veit ekki betur en að kvótakerfið eigi að styrkja byggð og auka atvinnu. En það er nú einu sinni svoleiðis að þetta eru ákveðnar geðþóttaákvarðanir sem ráðherra getur haft í þessum málum, eins og í kvótakerfinu, þ.e. hverjir fá fisk til áframeldis, hverjir fá kvóta til áframeldis, hverjir fá að veiða til áframeldis, hverjir fá þau sérréttindi. Þetta er auðvitað hlutur sem er í höndum ráðherra, nánast undantekningarlaust.

En hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir talaði um seiðaeldisstöðvar eða seiðaeldisstöð og ég tek undir það með hv. þingkonu Valgerði Sverrisdóttur, að það er auðvitað ekki nein lausn að búa til eina stóra seiðaeldisstöð. Ég held að það ætti að vera markmið ráðuneytisins og aðila í fiskeldi og ríkið þarf náttúrlega að koma þar myndarlega að, að vera með margar seiðaeldisstöðvar fyrir þorskeldi, kannski fimm, sex á landinu og helst hver með sinn þorskstofninn. Við vitum og höfum fengið sannanir fyrir því með DNA-rannsóknum að við Ísland eru margir villtir þorskstofnar og í sjálfu sér veit enginn hvað þeir eru margir. Það gætu þess vegna verið 30, 40 þorskstofnar við Ísland og þess vegna er mikilvægt að í eldinu væru þeir aðgreindir eða fiskur veiddur á mismunandi stöðum til að nota í seiðaeldið.

Við þurfum auðvitað að sinna þessu fiskeldi. Við erum í samkeppni við aðrar þjóðir og það er öruggt að í framtíðinni þegar þekking, reynsla og rannsóknir hafa hjálpað okkur lengra áfram með slíkt eldi þá eigum við að geta haft bæði mikla atvinnu og miklar gjaldeyristekjur af því. Ég hef aldrei dregið það í efa eða haldið að það yrði ekki. En við þurfum að læra af reynslunni, læra hvernig við eigum að taka á þessum málum og það getum við auðvitað gert. En það þarf vönduð vinnubrögð í þeim efnum og við þurfum að sinna rannsóknum á sem flestum sviðum, á sem flestum tegundum og í eldi. Því það er auðvitað ekki bara þorskeldi, það er hægt að vera með kolategundir og ýmsar tegundir í eldi og við eigum auðvitað að nýta okkur þetta allt saman.

Hvað varðar refsingar og fangelsi í tvö ár fyrir það ef rifnar kví, þá er það nú harður dómur að setja fólk í fangelsi fyrir slys en venjulega verður fólk sjálft fyrir mestum skaðanum þegar slík slys verða. En að sjálfsögðu er það alvarlegt ef stofnar blandast. Til gamans má geta þess að í Noregi hafa farið fram atferlisrannsóknir á þorski í flóum og fjörðum og þar hafa menn komist að því að þar er hver tegundin í sínum firðinum og þó að seiði væru færð á milli fjarða þá fóru þau til baka aftur yfir í sinn heimafjörð eða dóu, drápust. Það var líka merkilegt að þegar fiskur, göngufiskur úr Barentshafinu var að ganga inn á firði í Noregi til þess að hrygna, á hefðbundnum hrygningarslóðum, þá brunduðu þorskarnir ekki yfir hrognin hjá hrygnum nema þær væru af þeirra ætt eða þeirra stofni. Það var svo skrítið að ólíkir stofnar blönduðust ekki. Samkvæmt því ættu þorskstofnar sem væri verið að rækta í kvíum á Íslandi ekki að blandast við aðra óskylda stofna þótt þeir slyppu út.

Þetta er eitt af því sem mér finnst hafa verið gert allt of lítið af á Íslandi, þ.e. að stunda atferlisrannsóknir á gullfiskinum okkar, þ.e. þorskinum, sem hefur verið okkur dýrmætur stofn, eða stofnar, og það er auðvitað mikið því að þakka hvernig okkur hefur tekist að búa til vöru úr honum og úr öðrum fisktegundum.

Það má segja að í gegnum tíðina hafi þorskurinn verið okkar dýrmætasta auðlind og, nota bene, eins og útlitið er í dag þá virðist vera nóg af þorski sem við fáum ekki að veiða. Við horfum jafnvel upp á að heilu árgangarnir drepist úr elli frekar en að við fáum að veiða þá hér á Íslandsmiðum sem er auðvitað mjög sorglegt, þegar fiskur kemur annars staðar frá, væntanlega bæði frá Grænlandi og austan úr Barentshafi og víðar og við nýtum hann ekki.

En ég ætla nú ekki að fara að blanda þessu saman, þ.e. þorskeldi og fiskeldi og svo aftur óréttlátu fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við og er arfavitlaust og rannsóknir eru allt of litlar og byggðar á röngum forsendum, á svokölluðu togararalli. Ég ætla ekki að fara að koma inn á þessa þætti en get samt ekki sleppt tækifæri til þess að minna sjávarútvegsráðherra á þá vitleysu alla saman sem hann hefur staðið fyrir og varið baki brotnu síðan hann kom í þennan stól þó að hann hafi nú verið á annarri skoðun áður en hann varð sjávarútvegsráðherra. En enn og aftur vil ég segja að það eigi að skoða ákvæðið um refsingar sérstaklega.