140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. þingmaður spyrji um afstöðu fjármálaráðherra í ljósi umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hæstv. fjármálaráðherra gerði ekki athugasemdir við afgreiðslu frumvarpsins úr ríkisstjórn svo því sé svarað. Hvað varðar síðari spurningu hv. þingmanns þá hefur hann tekið eftir því að ekki er gert ráð fyrir að mörkun teknanna gangi í gildi fyrr en í byrjun árs 2014. Það er meðal annars gert til að unnt sé að aðlaga áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum að þessu, verði frumvarpið að lögum. Ég tel mikilvægt að við áttum okkur líka á því að þó að ríkið verði af ákveðnum tekjum, miðað við núverandi innheimtu útvarpsgjalds, var það svo þegar útvarpsgjaldið var innheimt í fyrsta sinn að þá innheimtist talsvert minna en gert var ráð fyrir á fjárlögum. Þar getur því brugðið til beggja vona og ljóst að áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum þarf alltaf að taka mið af þeirri innheimtu sem kemur af útvarpsgjöldum hver sem hún verður. Ég tel hins vegar málið snúast um prinsippmál, þ.e. að við greiðum ákveðið gjald fyrir útvarpsþjónustu í almannaþágu og það gjald (Forseti hringir.) renni þá til þess verkefnis.