141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Hann spurði hvort hér væri verið að setja á fót hjáleið fram hjá núgildandi breytingarákvæði. Það er auðvitað ein leið að fara þá leið sem hv. þingmaður virðist ýja að, að betra sé að breyta aðferðafræðinni í heild um hvernig stjórnarskránni skuli breytt. Við ætlum okkur ekki þá dul og teljum eðlilegra að umgjörð um það hvernig stjórnarskránni skuli breytt verði sköpuð í heildarendurskoðun á stjórnarskránni þannig að ef hún verði að veruleika á næsta kjörtímabili komi þar líka varanlegt breytingarákvæði sem byggi þá á víðtækri samstöðu um þá niðurstöðu.

Það má velta ýmsum möguleikum fyrir sér í þessu efni, hvernig viðmið og þröskuldar eiga að vera. Eins og ég segi erum við flutningsmenn málsins alveg til viðræðu um einhverjar breytingar þar á sem geta þá orðið að veruleika í kjölfar samræðna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Aðalatriðið er samt það að hér eru umtalsverðar girðingar reistar, 60% þings og 60% þjóðar eru býsna hátt hlutfall. Þegar þar við bætist að það líði að lágmarki sex mánuðir á milli er ljóst að það þarf umtalsverða þjóðfélagslega samstöðu til að ná fram breytingum. Ég held að menn eigi að geta sammælst um að það sé æskilegt að umtalsverð samstaða ríki um breytingar. Það hvernig menn finna nákvæmlega úrlausnina til að tryggja það er síðan annar handleggur.