141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vilji okkar flutningsmanna er að þessi mál fylgist að og í okkar huga eru þau bæði hluti af leið til þess að hjálpa okkur út úr ákveðnum ógöngum og ágreiningi sem þingið er nokkuð læst í. Við leggjum þetta þar af leiðandi upp sem jákvætt útspil. Ef menn geta sannfært okkur um einhverjar aðrar betri lausnir held ég að við getum rætt þær en ég á mjög erfitt með að sjá að hægt sé með farsælum hætti að finna farveg utan um þá stöðu sem upp er komin ef við gerum ekki hvort tveggja, að tryggja að stjórnarskrárumbótaferlið sem hafið er geti lifað áfram, og niðurstöður þess fái að minnsta kosti að sjást hér á nýju þingi, og að það verði mögulegt að breyta stjórnarskrá á næsta kjörtímabili.