141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

642. mál
[21:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Þannig er með þetta kjörtímabil, og ég er nú búinn að upplifa þau nokkur, að sjaldan hefur verið eins mikill ágreiningur milli flokka og milli einstakra þingmanna. Mér finnst þessi þingsályktunartillaga bera þess vitni. Eins og í því máli sem var hér á dagskrá á undan eru það formenn þriggja flokka, hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, sem leggja fram tillöguna. Ég er nærri viss um að ef menn hefðu gefið sér einhvern tíma, segjum bara einn dag eða tvo, til að fara í gegnum þetta með öðrum formönnum flokka, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Hreyfingarinnar, hefði örugglega náðst betri niðurstaða, eitthvað sem allir væru sammála um, eitthvað sem menn gætu fallist á um svona breytingu á stjórnarskránni. Hugsanlega varanlega breytingu, hugsanlega með yfirlýsingu allra formannanna um að þeir mundu halda þessu starfi áfram eða eitthvað slíkt gegn því að þessari umræðu yrði hætt. En það var ekki fyrr en í gær eða fyrradag sem þessi kúvending kom upp. Það er alveg ótrúleg kúvending á ekki lengri tíma þar sem menn hætta allt í einu við eitt stykki stjórnarskrá og fara yfir í það að breyta eingöngu ákvæðinu um 79. gr. Ég hef reyndar lagt fram frumvarp um slíkt í þrígang og bent einmitt á það að vilji menn að þjóðin eða kjósendur greiði bindandi atkvæði um stjórnarskrá sína verði að gera eitthvað svona.

Eins og bent hefur verið á í umræðunni um þetta mál er það fullt af pólitískum agnúum. Það eru ekki allir sáttir við það ferli sem hefur verið í gangi og þess vegna finnst mér rangt að vísa til þess. Hv. þm. Birgir Ármannsson benti á að fyrsta málsgreinin er eiginlega full af ágreiningsatriðum, eins og menn séu að leita að ágreiningi. Hún er alveg óþörf, hún gerir ekkert fyrir málið. Það hefði alveg mátt láta seinni málsgreinina standa eingöngu eftir og þar stæði einfaldlega að kjósa ætti fimm manna stjórnarskrárnefnd sem mundi vinna úr þeim hugmyndum sem hafa komið fram og endurbæta þær. Þá er hugsanlegt að samstaða hefði náðst um þetta og formenn allra flokka verið með. Það getur vel verið að það takist enn, frú forseti. Menn eru kannski ekki alveg svona ágreiningsfúsir og vel má vera að það takist að ná fram málamiðlun á þeim örfáu dögum sem eftir eru. Þetta fer jú til nefndar og það er yfirlýst að þar verði málið rætt og hugsanlega gerðar á því breytingar.

Ég hefði viljað sjá hærri þröskuld í þessari tillögu, t.d. að að minnsta kosti 40% þjóðarinnar þurfi að greiða atkvæði með stjórnarskrárbreytingu. Svo er náttúrlega spurning hvort menn vilji gera þá breytingu sem lögð var fram í málinu hér á undan, að þetta verði bráðabirgðaákvæði.

Það er náttúrlega tómt mál að Alþingi fari að álykta fyrir næsta Alþingi vegna þess að sérhvert Alþingi er sjálfstætt og getur afnumið þær þingsályktanir sem hafa verið samþykktar áður eða unnið eftir því sem því dettur í hug. Nýtt þing fer eftir sannfæringu sinni samkvæmt núgildandi stjórnarskrá, sem er einnig í samræmi við þær hugmyndir sem við höfum verið að ræða hérna mjög lengi.

Ég skora því á alla aðila að reyna að finna einhvern flöt á sameiginlegri þingsályktunartillögu og sameiginlegri breytingu á stjórnarskránni þannig að allir séu nokkurn veginn sáttir og gefi sér kannski tvo, þrjá daga í það eða fram að helgi, fram á mánudag. Það yrði skemmtilegri bragur á því, frú forseti, ef stjórnarskránni yrði breytt í sæmilegri samstöðu.