143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

viðhorf forsætisráðherra til loftslagsbreytinga.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta spurningu. Hvað varðar umræðu í fjölmiðlum var ég spurður út í framtíðarmöguleika Íslands, m.a. hvað varðaði matvælaframleiðslu, með breyttu loftslagi og hlýnun hér á norðurslóðum. Ég svaraði því á sama hátt og ég hef gert undanfarin fimm ár, með því að benda á að Ísland, eins og nágrannalöndin, ætti heilmikið tækifæri á sviði matvælaframleiðslu, en ekki bara tækifæri heldur skyldur líka, við hefðum skyldum að gegna gagnvart heiminum þegar ljóst er að eftirspurn eftir matvælum mun fara mjög vaxandi og aðstæður til að framleiða matvæli sunnar á hnettinum verða mun erfiðari en verið hefur mjög víða, ekki hvað síst vegna vatnsskorts.

Í Bandaríkjunum, þar sem er töluvert þróaður landbúnaður og jafnvel einum of mætti segja, er vatn engu að síður af skornum skammti á mjög stórum svæðum og ljóst að landbúnaður er að leggjast af á stórum svæðum í Bandaríkjunum vegna vatnsskorts. Ég held að 70% af ferskvatnsnotkun í Bandaríkjunum hafi á undanförnum áratugum runnið til landbúnaðar, en nú er þetta vatn ekki lengur til vegna þess að það er orðinn vatnsskortur í borgunum.

Þetta er bara eitt af fjölmörgum dæmum eins og hv. þingmaður rakti í fyrirspurn sinni um þessa uggvænlegu þróun, en þar höfum við Íslendingar skyldum að gegna og getum lagt heilmikið af mörkum, ekki bara á sviði matvælaframleiðslu og með því að bregðast við ástandinu heldur auðvitað líka með því að halda áfram að reyna að halda aftur af þessari þróun þar sem ég held að segja megi að við Íslendingar höfum staðið okkur býsna vel með framleiðslu á umhverfisvænni endurnýjanlegri orku. Líklega ættum við þá að gera meira af því að framleiða orku á Íslandi með þessum endurnýjanlegu og umhverfisvænu orkugjöfum til að leggja fleiri lóð á þessar vogarskálar.