143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

upplýsingar til almennings um skuldaniðurfærslu.

[15:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra um 1. apríl frumvarpið um skuldamálin. Spurningin er einföld, hæstv. forsætisráðherra: Hvar er reiknivélin?

Þegar maður pantar sér pítsu veit maður hvort maður fær senda 18 tommu, 9 tommu eða bara brauðstangir. Maður hefur líka upplýsingar um verðið. En nú ber svo við að almenningur getur ekki fengið upplýsingar um það hvað hver og einn fær í skuldaleiðréttingu. Það gat hann hins vegar með þeim tillögum sem kynntar voru í Hörpu. Nú er búið að taka þær tillögur af borðinu og kynna allt aðrar tillögur sem enginn getur reiknað út úr. Almenningur er óöruggur um stöðu sína og þeir sem höfðu reiknað út að þeir ættu ákveðna inneign samkvæmt Hörputillögunum eru hræddir um að þeir fái minna út úr þessum tillögum.

Þegar tillögurnar voru kynntar í Hörpu lýsti forsætisráðherra því yfir í miðstjórn Framsóknar að reiknivél gæti komið á netinu. Í fréttatilkynningunni með Hörpu var reiknivél lofað um tillögurnar í Hörpu. Svo var allt í einu hætt við að setja fram reiknivél. Eftir það var alveg horfið frá tillögunum sem kynntar voru í Hörpu og allt aðrar tillögur kynntar.

Og aldrei birtist nein reiknivél.

Áhugamenn settu hins vegar upp reiknivélar á netinu vegna þess að það var hægt út frá þeim forsendum sem kynntar voru í Hörpu. Fjölmargir reiknuðu út hvað þeir mundu fá. Nú er þetta fólk í algjörri óvissu vegna þess að tillögurnar sem kynntar voru í Iðnó eru allt aðrar tillögur en kynntar voru í Hörpu. Þær geta leitt til annarrar útkomu.

Ég bið þess vegna forsætisráðherra að efna fyrirheitið um reiknivélina og hvet til þess að fyrir sveitarstjórnarkosningar upplýsi Framsóknarflokkurinn með reiknivél á netinu fólkið í landinu um það hvað hver og einn, þótt ekki væri nema um það bil, muni fá út úr skuldaleiðréttingunni eða miðað við 100% þátttöku í úrræðinu eða gefi með einhverjum hætti fólki vísbendingar um á hverju það á von en dragi það ekki (Forseti hringir.) fram yfir sveitarstjórnarkosningar.