143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að það er verið að skapa hvata. Ég er ekki að draga úr því. Ég er einfaldlega að benda hæstv. ráðherra á að það er kannski ekki skortur á hvata sem veldur því að lágtekjufólk og meðaltekjufólk hefur ekki lagt fyrir unnvörpum á undanförnum árum heldur er það vegna þess að allar greiningar sýna að fólk á í erfiðleikum með að láta enda ná saman. Það er veruleiki sem hæstv. ráðherra getur ekki afneitað, þetta snýst ekki um hvatakerfið. Þetta snýst ekki um að fólkið sé latt eða sýni óráðsíu í fjármálum. Þetta snýst um að það er ekki fé til að leggja fyrir. Þess vegna felur þetta kerfi í sér umbun til þeirra sem hvort eð er geta lagt fyrir og þar með eykur það á misskiptingu.

Svo er það athyglisvert að hæstv. ráðherra kemur ekki hingað í andsvar og úskýrir af hverju hann kýs að fylla alla vasa fjár hjá fjármálastofnunum með því að greiða upp greiðslujöfnunarreikninga sem við erum búin með lögum frá 2009 að tryggja að þurfi ekki að borga fyrr en eftir einhverja áratugi. Af hverju er verið er að setja fjármálafyrirtækin í forgang en ekki fólkið?