143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ef við tökum hjón sem eru kennarar og hafa nýlega lokið námi, eru að koma undir sig fótunum og eiga ekki íbúð. Þau voru á stúdentagörðum í námi, ég tek það sem dæmi, og nú eru þau komin út á almennan vinnumarkað. Þau hafa ekki náð að safna sér fé til að eiga fyrir útborgun. Þau spara ekki séreignarsparnað en gætu hafið þann sparnað núna.

Það vita allir sem hafa skoðað fasteignamarkaðinn nýlega að þessi hjón munu ekki að þremur árum liðnum eiga fyrir útborgun í íbúð. Fólk hefur mismunandi væntingar og mismunandi vilja en það er vitað mál að það er vaxandi áhugi á leiguhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík. Áherslur fólks eru að breytast við val á húsnæði. Ég held að margir séu í svipaðri stöðu og þetta fólk sem mundi fagna því ef ríkisstjórnin lýsti því yfir að nú ætti að setja fjármuni í að byggja upp alvöruleigumarkað á viðráðanlegu verði þar sem fólk gæti búið við húsnæðisöryggi í nálægð við almenningssamgöngur og góða þjónustu.

Þetta eru smáskammtalækningar, þetta er ekki framtíðarsýn fyrir fjölskyldufólk á Íslandi.