144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í lok umræðunnar og vil þakka fyrir málefnalega umræðu um frumvarpið. Það hefur komið í ljós að sitt sýnist hverjum um ýmislegt í frumvarpinu en ég get ekki betur heyrt en allir séu sammála um mikilvægi þess að setja í stjórnarskrá ákvæði um auðlindir í eigu þjóðar og ég tel afar mikilvægt að það sé gert og frá því gengið.

Að öðru leyti hafa hér komið upp þó nokkrir í minnihlutaflokkunum og lagt til að við þessar aðstæður og á þessum tíma sé ekki rétti tíminn að hlutdeildarsetja makrílinn inn í það kerfi sem við þekkjum best og hefur skilað okkur hvað mestu á síðastliðnum áratugum í þjóðhagslegri hagkvæmni í útgerð og auknum tekjum til þjóðarbúsins. Menn hafa velt ýmsu upp og verið með aðrar hugmyndir. Það er rétt að ítreka að í mati umboðsmanns Alþingis, sem hann kvað upp úr með í fyrrasumar, taldi hann algerlega skýrt að frá og með árinu 2011 hefði löggjafarvaldinu verið skylt að hlutdeildarsetja makríl eða setja sérlög eins og hér er verið að gera.

Menn hafa einnig velt fyrir sér að 5% sem fara til línu- og handfærabáta sé of lítið. Ég vil mótmæla því og tel að hér sé gert vel við þann hóp. Ef við berum það sérstaklega saman við hlutdeildarsetningu á öðrum tegundum og þær veiðar sem verið hafa er hér gefið í og umtalsvert magn fer til þessa hóps. Það hefur líka verið opnað á það í umræðunni að sá hópur hafi ekki fengið jafn langan tíma til að afla sér veiðireynslu. Engu að síður er hér tekið sex ára tímabil og það er rétt að margir töldu í upphafi að erfitt væri að sinna þessum veiðum og það gekk erfiðlega. Það þurfti frumkvöðla sem voru tilbúnir að eyða fjármunum sínum og tíma í að þróa veiðarnar alveg eins og í stóra flokknum. Það var ekki eins auðvelt og menn hafa látið hér í veðri vaka, að þetta hafi bara komið og hoppað upp í bátana. Upphaflega voru þetta blandaðar veiðar á síld og makríl en menn þurftu að þróa þær og prófa sig áfram með tilheyrandi kostnaði til að ná tökum á þessari veiði sem við höfum svo sannarlega séð að skilað hefur mjög miklu til þjóðarbúsins á liðnum árum.

Ég verð að segja eins og er að út frá því grundvallarjafnræði sem við hljótum að horfa til er skynsamlegt að hlutdeildarsetja við þessar aðstæður og gera það yfir alla línuna. Það má benda þeim á sem hafa talað fyrir því að smábátarnir gætu verið að fá hærra verð eða hæsta verð að það gerist fyrst og fremst þegar menn geta skipulagt veiðar sínar, þ.e. með hlutdeildarsetningu. Það gerist ekki með ólympískum veiðum í júlí eða í byrjun ágúst þegar makríllinn er ekki eins verðmætur og hann verður síðla sumars og jafnvel fram í september. Við hlutdeildarsetningu geta menn skipulagt veiðarnar og náð hámarksverðlagi.

Að lokum held ég að þegar við spyrjum okkur hvort núverandi tímasetning sé réttari en önnur þá verðum við að horfa til álits umboðsmanns. Ég horfi auðvitað líka til stjórnarsáttmálans um að við ætlum að nýta aflamarkskerfið áfram til þess að fá hámarksafrakstur af nýtingu fiskstofnanna við Ísland. Þegar við erum með best rekna sjávarútveg í heimi með því kerfi sem við höfum byggt upp á síðastliðnum áratugum þá hljótum við að spyrja okkur: Af hverju í ósköpunum ættum við ekki að nýta þennan stofn með sambærilegum hætti og alla hina stofnana?