Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[20:51]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum núna mál sem hér er nefnt fjárauki en er í raun og veru ekki fjárauki í mínum huga heldur tæknileg tilfærsla á fjármunum frá einu ráðuneyti til annars vegna þeirra breytinga sem ríkisstjórnin ákvað að ráðast í þegar hún var mynduð. Það er auðvitað á forræði hverrar ríkisstjórnar að ákveða hver sætaskipanin er og með hvaða hætti hún ætlar að vinna sín málefni og að sínum markmiðum. Því er ekkert óeðlilegt að ríkisstjórn hvers tíma taki ákvörðun um að breyta verksviði ráðuneytanna og í sjálfu sér er það bara á hennar forræði.

Einhvern veginn upplifði maður, þegar þetta fór í gang allt saman, eftir að manni fannst langan aðdraganda við myndun þessarar ríkisstjórnar — það var í raun nægjanlegur tími að mynda ríkisstjórn vegna upphlaupsins sem átti sér stað í Borgarnesi — að það hefði tekið fjarska langan tíma að ná þessu saman. Það gerði mann fullan af efasemdum um hver tilgangurinn væri. Var verið ná saman ríkisstjórn þar sem hver flokkur þyrfti að fá ráðherrastóla sem passaði við niðurstöðu eða úrslit þeirra kosninga sem fram fóru í september? Ég held að mörg okkar hafi haft grunsemdir um að stólaskiptin hafi ráðið miklu, frekar en verkefnin sem átti að takast á við.

Þetta var kannski það fyrsta sem manni datt í hug þegar þetta kemur inn á borðið við gerð síðustu fjárlaga. Eins og hér hefur verið nefnt var búið að gera ráð fyrir einhverjum 450 milljónum til að vinna að þessu og var þetta sett inn í einhvern málaflokk sem heitir sértækar fjárráðstafanir. Manni sýnist nú á nefndaráliti meiri hlutans að það hafi nú kostað drjúgt meira að gera þetta og ég veit ekki hver endanlegur kostnaður verður af því að reka þessi nýju ráðuneyti og ráða nýja ráðuneytisstjóra. Þetta eru talsverðir peningar og mér þótti þetta alla vega röng forgangsröðun á þeim tíma.

Ég ætla ekki að fara að eyða miklum tíma í að ræða það sérstaklega núna. Við erum auðvitað búin að takast á um forgangsröðun í allan vetur og vor. Við erum núna að fara í það verkefni að klára þetta en við vorum að fjalla um þetta í mars í fyrri umræðu. Það er kannski liðinn svolítið langur tími. Í ræðu minni í september hafði ég einhver orð um forgangsröðun og að ekki væri verið að sinna ákveðnum hópum heldur ráðstafa milljörðum á kjörtímabilinu í stólaskipti ráðherra. En ég held að dýrmætum tíma sé eytt í að vera að fjasa um það núna, við höfum komið okkar sjónarmiðum á framfæri hvað það varðar hér í pontu í allan vetur. Þetta er staðreynd og við verðum bara að una henni. Ég sé ekki að það verði farið til baka vegna þess að starfsmenn ráðuneytanna hafa verið sveittir í allan vetur við að reyna að ná tökum á þessu verkefni og ég hef það fyrir víst að þetta hafi ekki alls staðar gengið mjög vel. Það hafa orðið árekstrar og starfsmenn hafa meira að segja ekki alltaf vitað hvar þeir ættu að mæta í vinnuna. Það tekur tíma að ná utan um þetta en það kannski segir okkur að þetta verkefni var ekki vel undirbúið.

Ég held að eina málið sem hafi í raun verið undirbúið hafi verið þetta innviðaráðuneyti. Það var búið að ræða það að rétt væri að færa tiltekin verkefni inn í þetta sveitarstjórnarráðuneyti, styrkja það og úr því myndi verða þetta innviðaráðuneyti. Ég held að það hafi verið eina ráðuneytið sem átti einhvern aðdraganda. Allir voru meðvitaðir um að það ráðuneyti myndi verða til en hin ráðuneytin, t.d. menningar- og viðskiptaráðuneyti — ég hef ekki getað náð utan um tilgang þess að setja saman menningu og viðskipti, ég bara næ því ekki. Ég hefði alveg getað ímyndað mér að fjármála- og efnahagsráðherra væri bara viðskiptaráðherra líka eins og oft hefur verið, fjármála- og viðskiptaráðherra. Ég er því ekki sammála öllu þessu en ég ræð þessu ekki. Ég er í minni hluta á þingi og það verður þá verk meiri hlutans að bera ábyrgð á þessu þegar hann verður krafinn svara um hverju þetta hefur skilað. Við erum ekki farin að sjá árangur af þessu en auðvitað mun rykið setjast og við sjáum hvort þetta hafi heppnast og skilað þeim árangri sem að var stefnt. Í áliti meiri hlutans er talað um að þess sé krafist að þetta búi til aukinn sveigjanleika. Við heyrum líka að ákveðin ráðuneyti ætli að skoða möguleikann á fjarvinnu og það er bara af hinu góða. Nýsköpun gæti orðið sem vert er að horfa til og ef hún verður að veruleika þá hefur þetta bara heppnast ágætlega. En þangað til vil ég fá að efast um að þetta hafi verið rétt aðgerð, sérstaklega í ljósi þess að þegar við erum í fjárlagagerðinni er staðan mjög erfið. Ákveðnir hópar stóðu illa og við þurftum að hafa verulega fyrir því að fá greiddan svokallaðan jólabónus til öryrkjanna fyrir jól, en á þessum tíma var verið að ráðstafa fjármunum í það sem við töldum mörg okkar að ætti ekki að vera efst á framkvæmdalistanum. Í því var gagnrýnin fólgin; manni fannst að ekki væri verið að ráðstafa fjármunum rétt.

En þetta er auðvitað bara hin rétta leið þegar búið er að taka ákvörðun um að gera þetta með þessum hætti, að raða þá peningunum til þeirra málefnasviða og málaflokka sem eiga að fara með ákveðin verkefni. Þarna er því bara verið að bregðast við þeim breytingum sem búið er að ákveða. Vonandi erum við ekki að kasta fjármunum á glæ og vonandi skilar þetta einhverjum árangri og verður til þess að bæta þá verkferla sem eru til staðar í stjórnsýslunni. Það verður bara að koma í ljós. Þessi meiri hluti ber auðvitað ábyrgð á þessu og mun þá bara klára þetta verkefni með atkvæðagreiðslu, ég veit ekki hvenær hún verður en væntanlega á morgun. Ég studdi ekki þessar breytingar þegar þær voru lagðar fram og mun heldur ekki gera það við lokaatkvæðagreiðslu.