Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[21:02]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Vart er hægt að finna stærri aðdáenda íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins heldur en mig. Það er auðvitað mjög gleðilegt að með atorku sjávarútvegsfyrirtækja hafi tekist og takist á hverju ári að finna fleiri leiðir til að nýta auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti íslensku þjóðinni til hagsbóta. Þessu frumvarpi ber því auðvitað að fagna að því leyti. Það er hins vegar grátlegt að upplifa hversu umfangsmiklar deilur eru enn þá um fyrirkomulag úthlutunar aflaheimilda og að vita það að ekki horfir til þess að þeim deilum ljúki neitt á næstunni.

Það stendur fyrir dyrum endurskoðun á lögum eða vinna í þá átt sem hæstv. matvælaráðherra hefur þegar hafið. Ég naut góðs af því að fá að taka þátt sem varamaður á fyrsta fundi þess hóps og verð að segja að mér líst mjög vel á hvernig það mál er lagt upp. Ég leyfi mér þó að vera varfærnislega efins um að meiri háttar breytingar séu líklegar til að koma úr þeim farvegi þó að ég telji að margs konar skynsamlegar minni háttar breytingar gætu átt eftir að eiga upphaf í því ferli. Það blasir við og hefur ítrekað verið bent á af þingmönnum Viðreisnar að besta leiðin til að takast á við breytingar og sú langsamlega sársaukaminnsta fyrir þessa mikilvægu grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar væri að gera tilraunir með úthlutun tegunda sem ekki hafa verið nýttar áður.

Það er í samhengi þessa frumvarps sem mig langar til að nefna að hér erum við þá enn og aftur að missa af slíku tækifæri. Þó að ekki séu undir meiri háttar tegundir þá hefði auðvitað mátt hugsa sér að við úthlutun þessara réttinda væri farin önnur leið en sú sem vanalega er farin. Því miður er ekki svo. En ekki verða gerðar neinar breytingar án þess að um þær sé rætt og þess vegna kveð ég mér hér hljóðs, til að minna á að besta leiðin til að prufa sig áfram með breytingar á fyrirkomulagi við úthlutun þessara réttinda væri að gera einmitt tilraunir þegar tækifæri gefast til að úthluta óúthlutuðum tegundum sem á við í öðru af þeim tilfellum sem er til umræðu hér í dag.

Það hafa verið skrifaðar margar skýrslur um þetta efni á undanförnum árum, mjög margar tillögur komið fram með ólíkum útfærslum. Mig langar sérstaklega til að vekja athygli á tillögu sem lögð var fram á árinu 2013. Það vill þannig til að hún var lögð til í ferli sem er á allan hátt sambærilegt við það ferli sem matvælaráðherra leggur upp með í dag og var þá kallað samráðsvettvangur um aukna hagsæld. Í tengslum við þá vinnu voru m.a. lagðar fram tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem einmitt höfðu fallið mjög þægilega að úthlutun í nýjum tegundum. Eins og áður sagði, standi til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi, og það hefur vissulega verið lagt upp með það í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, þá er augljóst að það hefði verið mjög ákjósanlegt að nýta tækifæri eins og það sem við raunverulega stöndum með í höndunum í dag. Fyrirkomulagið er í stuttu máli þannig að í stað þeirrar úthlutunar sem þarna er ákveðin yrði úthlutað með sambærilegri reglu og kveðið er á um í b-lið 2. gr. frumvarpsins nema hvað að réttindin væru einkaréttarlegs eðlis og þar af leiðandi varin af stjórnarskránni sem myndi náttúrlega fylgja ákveðin vörn samanborið við þau réttindi sem hér er verið að leggja til að úthluta fyrir þær útgerðir sem hljóta réttindin en að þau væru á móti tímabundið. Þetta kerfi myndi falla fyllilega að núgildandi reglum og aðferðum við úthlutun aflamarks á grundvelli aflahlutdeildar. Það myndi raunverulega vera hægt að nota nákvæmlega sama fyrirkomulag varðandi alla úthlutun aflamarks og viðskipti með aflamark og raunar líka með viðskipti með aflahlutdeild. Munurinn væri sá í stuttu máli að réttindunum væri úthlutað til ákveðins tíma með samningi og sá samningur væri milli útgerðarinnar og hins opinbera og þar af leiðandi varinn af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Mér finnst ástæða til að nefna þetta hér vegna þess að þessi lausn hefur kannski ekki fengið nægilega mikla umfjöllun né heldur sá kostur hennar að hægt væri að beita henni í tilraunaskyni, jafnvel þó um óverulega hagsmuni væri að ræða, án þess að því myndi fylgja augljóst tjón fyrir útgerðir heldur þvert á móti myndi því fylgja ákveðin vörn gegn öðrum óákveðnum en hugsanlega fyrirsjáanlegum breytingum á kerfinu sem gerðar verða á komandi árum.