Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[21:43]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem er fámennur en góðmennur, þar er ég einn. Við í minni hlutanum — nei, það er kominn einhver þinglokagalsi í mann. Ég tel jákvætt að stækkanir á núverandi virkjunum séu undanþegnar einhverju þunglamalegu ferli í þeim tilvikum þegar stækkunin felur ekki í sér að nýju landsvæði sé raskað. Sjáum þetta bara fyrir okkur: Þú ert með stíflu og það eina sem þú þarft að gera liggur við er að troða einni túrbínu í viðbót inn í hana og þá græðirðu allt í einu fullt af nýrri orku og þá hlýtur það að vera jákvæð framkvæmd að vera ekki með mikið ferli utan um. En til þess einmitt að tryggja að það sé ekki röskun á landsvæði sem fylgir þessum framkvæmdum er mikilvægt að gera eins og meiri hlutinn leggur til, taka skýrt fram að leyfisveitandinn, Orkustofnun, eigi að leita umsagnar hjá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Svona hlutir gerast ekkert endilega af sjálfu sér. Við þurfum að tiltaka þá af því að það er svo ofboðslega auðvelt fyrir kerfið að gleyma hagsmunum náttúrunnar þegar efnahagslegar framfarir eru annars vegar. Við þurfum bara að stafa hlutina út allt of oft.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram áhyggjur af því að yrði frumvarpið að lögum myndi skapast nýr og aukinn þrýstingur á veituframkvæmdir til að auka vatnsmagn í ám sem þegar eru virkjaðar vegna þess að þá ertu kominn með meira vatn í ána til að troða einni túrbínu í viðbót í stíflu. Félagið Náttúrugrið benti á að af þeim fjórum virkjunarkostum sem er fjallað um í greinargerð frumvarpsins séu þrjár vatnsaflsvirkjanir sem Landsvirkjun hyggst stækka á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og þar myndu allar forsendur virkjana breytast til muna ef hugmyndir Landsvirkjunar um Kjalölduveitu næðu fram að ganga. Ég verð bara að segja, forseti, að svo lengi sem Landsvirkjun heldur fast í þessar hugmyndir sínar eða þessa þráhyggju sína að rústa Þjórsárverum með því að veita vatni á því svæði yfir á Þjórsársvæðið, hvort sem það er kallað Norðlingaölduveita eða Kjalölduveita eða hún finnur nýtt nafn ef það dugar ekki, þá er mjög eðlilegt að öllu sem getur mögulega tengst þeim framkvæmdum sé mætt með tortryggni. Nefndin fékk þess vegna minnisblað frá Landsvirkjun þar sem var reynt að grafast fyrir um arðsemisútreikninga og hvernig þetta gæti mögulega haft áhrif og þar kemur fram að þó að Kjalölduveita myndi bæta nýtingu vatns á Þjórsársvæðinu og þar með arðsemi þeirra mögulegu stækkana sem um ræðir þá sé hún ekki forsenda slíkrar stækkana.

Þetta slær ekki á allar áhyggjur. Þótt það sé ekki forsenda stækkananna þá er þarna arðsemisvon sem Kjalölduveita gæti glætt. Við verðum að skoða þessa umræðu í samhengi við niðurstöðu sem stjórnarflokkarnir komast að varðandi rammaáætlun sem við vorum að ræða hér fyrr í dag, í 332. máli, þar sem er einmitt lagt til að færa Kjalölduveitu úr verndarflokki í biðflokk á mjög hæpnum forsendum. Sá þrýstingur er farinn að skila árangri. Í ljósi þess að sú niðurstaða var ekki kynnt nefndinni fyrr en rétt á síðustu dögum þingsins þá hefur nefndin að mínu mati bara ekki haft tóm til að kanna til hlítar hvernig forsendur stækkana myndu breytast með tilkomu Kjalölduveitu, af því að sú hugmynd varð allt í einu nærtækari þegar stjórnarmeirihlutinn ákvað að færa Kjalölduveitu einu skrefi nær veruleika. Það er alveg rétt sem meiri hlutinn segir að það er ekki fjallað um Kjalölduveitu í þessu frumvarpi og það er alveg rétt að Kjalölduveita yrði aldrei hluti af þeirri framkvæmd sem stækkun myndi fjalla um. En það verður ekki horft fram hjá því að fjárhagslegur þrýstingur og pólitískur þrýstingur myndi aukast á frekari tilfærslu Kjalölduveitu á seinni stigum rammaáætlunar. Þegar er búið að opna fyrir þann möguleika að allt í einu verði þrjár virkjanir í Þjórsá, miklum mun arðbærari ef það væri bara meira vatn í Þjórsá, þá verður bara miklu meiri þrýstingur á að hrinda í framkvæmd veitu sem eykur vatnið í Þjórsá.

Í þessu ljósi og í ljósi tímans sem við höfum ekki fyrir höndum gat ég ekki staðið að áliti meiri hlutans í máli sem á yfirborðinu er bara ansi jákvætt, því miður. En svona er nú staðan orðin flókin í umhverfis- og samgöngunefnd þegar ákvarðanir um þingsályktunartillögu um rammaáætlun eru teknar á vafasömum forsendum, þá verðum við dálítið stressuð varðandi ólíklegustu hluti sem tengjast rammaáætlun á minnsta mögulega hátt.