135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

hvalveiðar og ímynd Íslands.

[13:57]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það segir sig nokkurn veginn sjálft og ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að það sé heilmikils virði fyrir þjóð eins og Íslendinga og aðrar þjóðir auðvitað að ímyndin sé í góðu lagi. Ég held að almennt talað hvað varðar auðlindanýtingu okkar sé sú ímynd í mjög góðu lagi. Það er einfaldlega sú reynsla sem ég upplifi þegar ég fer á fundi erlendis, sem mikil eftirsókn er eftir að við Íslendingar komum fram á vegna þess að það er litið til okkar sem ákveðinnar fyrirmyndar varðandi auðlindanýtingu þrátt fyrir alla umræðuna sem á sér stað innan lands. Það er því alveg augljóst mál að við viljum að ímynd okkar verði áfram sterk á þessu sviði.

Ég er hins vegar ekki sammála því að þessi ákvörðun á sínum tíma, haustið 2006, hafi ekki verið nægilega vel undirbúin. Þvert á móti, þetta er ákvörðun sem tekin var að lokinni gríðarlega mikilli umræðu, bæði í þinginu, á almennum vettvangi og hvar sem var. En það er auðvitað ljóst að um þessi mál hafa verið skiptar skoðanir. Ég er þess vegna ekki sammála því mati að það hefði þurft að undirbúa þetta betur. Það má alltaf segja sem svo að hægt væri að gera enn þá betur í einhverjum tilvikum en þetta var að mínu mati alveg nægilegur undirbúningur til að taka þá ákvörðun sem á sínum tíma var tekin.

Ég tók hins vegar eftir því í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður vísaði til að það var með svona frekar óljósu orðalagi talað um það „virðist hafa verið gert“ og „það kann að vera“ o.s.frv. Það voru slegnir miklir varnaglar, enda er það auðvitað huglægt mat sem þarna á sér stað. Stóra málið er hins vegar það að þrátt fyrir allar hrakspárnar sem fóru af stað í kjölfar ákvörðunar minnar haustið 2006 gerðist ekkert af því sem menn voru að spá. Það gerðist ekki að ferðamenn hættu að koma hingað til lands. Það gerðist ekki að erfitt væri að selja afurðir okkar eins og margir ætluðu. Það varð ekki þannig að sótt væri að okkar stóru útrásarfyrirtækjum í útlöndum sem margir spáðu. Reynslan er alltaf ólygnust í þessu sambandi. Menn geta verið með stöðugar vangaveltur um að hlutirnir gætu farið á þennan veginn og hinn veginn en eigum við ekki fyrst og fremst að reyna að byggja á reynslunni, hún er (Forseti hringir.) ólygnust í þessum efnum?