136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

afgreiðsla efnahags- og atvinnumála.

[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Forsætisráðherra má treysta því að við munum stuðla að því að greiðsluaðlögunin fari í gegn, séreignasparnaðurinn er skref í rétta átt. Ég nefni líka endurgreiðslurnar á skattinum vegna endurbóta á húsnæði. Allt eru þetta mál sem við munum fylgja eftir og hjálpa ríkisstjórninni með í gegnum þingið.

En við viljum einfaldlega fá meira. Við vitum að forsætisráðherra talaði um 29 mál, það eru 9 mál hér í þinginu. Hvar stoppa hin 20? Eru þau föst í þingflokkunum? Við viljum ræða þessi mál og þess vegna ítrekum við sjálfstæðismenn: Meðan svona skammt er eftir af þingi höfum við ekki efni á öðru en að ræða um atvinnumál og efnahagsmál og láta allt annað liggja. Við erum reiðubúin til þess, eruð þið tilbúin í það?