136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

innköllun íslenskra aflaheimilda.

98. mál
[17:30]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þekkir bersýnilega ekki regluverk Fiskistofu, ekki má fara á sjó nema hafa veiðiheimildir á skipinu áður en farið er í róður. Það væri dálítið erfitt að safna því hjá fullt af fólki út um borg og bý, að reyna að ná í veiðiheimildir. Þessa hugmynd hv. þm. Péturs H. Blöndals er auðvitað hægt að hugsa sér í einhverjum kvótabanka, en kvótakerfið sem slíkt er mjög slæmt vegna þess að þegar menn leigja veiðiheimildir, kvóta, fyrir 200 kr. kílóið af þorski og markaðsverðið er 210 til 220 kr. gefur augaleið að fiska þarf dýrasta fiskinn, sem er venjulega stærsti og besti fiskurinn.

Við höfum verið að gagnrýna það í Frjálslynda flokknum, frá því að kvótakerfið var tekið upp og frá því að flokkurinn var stofnaður, að brottkast fylgir og er innbyggt í kerfið, þ.e. þegar menn veiða fisk sem ekki nær því verðmæti að hægt sé að landa honum er honum kastað. Það er einn stóri gallinn við kvótakerfið, brottkast, framhjálandanir og annað í þeim dúr. Ég hef lagt fram frumvarp hér í vetur um að skoða það og rannsaka hve miklu er landað fram hjá og hent í sjóinn og annað í þeim dúr. Ég vildi að rannsóknarnefnd yrði sett á laggirnar svo að við fáum það upp á borðið hve mikið færi forgörðum með þeim hætti. — Í dag er leiguverð 170 kr. á þorski en markaðsverð 200 kr.