136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

fjármálafyrirtæki.

111. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi í ræðu minni áðan að ég hefði tekið mið af þeirri umræðu sem fram fór og reyndi eftir besta megni að svara því sem fram kom. Ef hv. þingmaður er ósáttur við þau svör þá verðum við að ræða þetta við betra tækifæri og undir öðrum formerkjum en tvær mínútur í stuttu andsvari leyfa. Auðvitað var ég ekki að halda því fram að hv. þingmaður væri ójafnréttissinnaður. Ég var hins vegar að draga það fram að sú sem hér stendur og hv. þm. Pétur Blöndal verðum, held ég, mjög seint sammála í jafnréttismálum vegna þess að okkar nálgun á jafnréttismál er mjög ólík. Ég skilgreini mig sem femínista sem ég held að hv. þingmaður geri ekki. En vegna þess að hv. þingmaður talaði um hæfustu einstaklingana þá ætla ég að leyfa mér að hafa efasemdir um að allir þeir einstaklingar sem hingað til hafa verið valdir í stjórnir fjármálafyrirtækja í gegnum árin og hafa nánast undantekningarlaust verið karlmenn, hafi alltaf verið hæfustu einstaklingarnir. Ég ætla að leyfa mér að efast um það, hv. þingmaður.