141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:11]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að því seinna sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að það sé einmitt lýðræðislegra að þeir sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu ákveði örlög efnisins. Ég held að við séum að læra á þjóðaratkvæðagreiðslur hér á landi. Ég heyrði marga efast um gildi þeirra á þessu kjörtímabili. Ég held að við getum verið sammála um það, hv. þingmaður og ég, að þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem fóru fram á þessu kjörtímabili um Icesave-samninginn í tvígang hafi haft góð áhrif fyrir þjóðina. Við höfum lært af þeirri beitingu og séð það meðal annars líka að þjóðin er tilbúin að mæta á kjörstað til að kjósa um mál sem hún hefur áhuga á. Við eigum að virða þann rétt alveg eins og við virðum niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu frá því í haust um efnisákvæði stjórnarskrár, okkur ber að gera það líka.

Ég kvíði því ekki að við getum ekki fundið efnislega niðurstöðu um það (Forseti hringir.) hverju við getum náð fram á þessu þingi því að fyrir okkur flutningsmönnum þessa máls vakir það eitt að finna hinum góðu áformum flokksþings Framsóknarflokksins farveg, að tryggja meðferð þessara tillagna stjórnlagaráðs áfram yfir á næsta þing.