141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það kann að vera að næsta þing verði öðruvísi samsett, það verða örugglega töluvert fleiri framsóknarmenn, okkur hv. þingmanni til mikillar gleði.

Áhrif þessara mála eru auðvitað tvímælalaust þau að ef breytingarákvæðinu verður breytt gefur það nýju þingi færi á að ljúka breytingum á stjórnarskrá, ekki eftir heilt kjörtímabil heldur á miðju kjörtímabili eða jafnvel fyrr, eins og hér er lagt upp með í þingsályktunartillögu, jafnvel á árinu 2014. Ef við ljúkum þessu máli og náum sátt um að klára að afgreiða það hér þá gefur það nýju þingi vissulega tækifæri.

Hvað varðar þingsályktunartillöguna sem miðar að því að skipa nefnd sem starfi milli þinga og skili af sér í haust til nýrrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þá skil ég í raun og veru ekki alveg hv. þingmann og kannski getur hann útskýrt það fyrir mér. Ég hef hingað til talið að þær þingsályktanir sem eru fyrir minn tíma í þinginu hafi sitt gildi. Þannig tók ég því þegar ég kom inn á þing og fór að höndla með samþykktar þingsályktunartillögur, að þær hefðu gildi þótt ég hefði persónulega og prívat ekki samþykkt þær. Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að þær þingsályktunartillögur sem hafa verið samþykktar á fyrri þingum falli úr gildi þegar ný þing taka við?