143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

þjóðhagslegur ávinningur af hvalveiðum.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það má alveg ræða veiðigjald á hvalveiðileyfi en eins og ég gat um í fyrra andsvari snúast hagsmunirnir ekki um þær tölur. Þetta snýst um miklu stærri hluti, þetta snýst um sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar. Ef við Íslendingar teljum það þjóna hagsmunum okkar að við fáum sjálf að ráða nýtingu auðlinda okkar og gefum engan afslátt á því, sem ég held að menn hljóti almennt að vera sammála um, verða menn að vera tilbúnir að verja þau prinsipp.

Þess vegna höfum við Íslendingar gert það og munum gera áfram rétt eins og aðrar þjóðir verja sína hagsmuni. Hv. þingmaður nefndi að þetta væri sérstök tilfinningasemi frekar en kalt efnahagslegt mat. Tilfinningasemin er öll í því að halda því fram að hvalir séu á einhvern hátt heilagar kýr á sama tíma og það fólk sem heyr slíka baráttu borðar nautakjöt og allar aðrar mögulegar kjötafurðir en (Forseti hringir.) tekur þessa dýrategund sérstaklega út úr. (BjÓ: Viðskiptalegir hagsmunir.)