144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við búum til kvóta verður kvótinn sjálfur að verðmætum. Fiskurinn sjálfur er verðmæti sem við höfum í sjálfu sér litla stjórn yfir ef nokkra og þegar makríllinn kemur inn í lögsöguna þá græðum við sem nemur verðmæti hans, þegar hann fer þá töpum við sem nemur verðmæti hans. Þegar við búum hins vegar til kvótann um að veiða makrílinn erum við búin að búa til ný verðmæti ofan á það. Þannig að ef makríllinn fer aftur, sem getur vel gerst, þá verður ekki bara brestur í makrílnum sjálfum heldur líka brestur í hagkerfinu sem umlykur stjórn veiða á honum. Það er þetta sem ég óttast að muni ýkja áhrifin vegna þess að við erum ekki viss enn þá.

Ef lagalega fyrirkomulagið veldur aukinni vissu hjá fjárfestum þá er ég ekkert viss um að það sé endilega jákvætt. Ég er ekkert endilega viss um að það sé neikvætt heldur, en mér finnst allt í lagi að sjávarútvegurinn á þessum tíma, vegna óvissunnar um makrílinn, sé frekar viðbúinn því að breyta hratt, átti sig frekar á því að innan sex ára gæti allt verið gjörbreytt. Það er úr okkar höndum, það erum ekki við sem ákveðum það heldur að því er virðist makríllinn sjálfur eða öllu heldur umhverfið.

Ég er því ekki sannfærður um að fyrirsjáanleikinn sem við gætum búið til hérna sé raunverulegur. Ef hann er óraunverulegur þá held ég að hann geti jafnvel búið til vandamál frekar en að leysa þau. Ég óttast það alla vega.

Að lokum langar mig að koma að leiðréttingu frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Hann nefndi við mig að Ísfélagið í Vestmannaeyjum hefði stefnt ríkinu og er þeirri leiðréttingu komið á framfæri.