Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

áhafnir skipa.

185. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek hér fyrir nefndarálit um frumvarp til laga um áhafnir skipa frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

„Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Árna Bjarnason og Árna Sverrisson frá Félagi skipstjórnarmanna og Guðmund Helga Þórarinsson frá Félagi vélstjóra- og málmtæknimanna.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að óánægju gætti um frumvarpið meðal réttindamanna vegna ákvæða um mönnun fiskiskipa. Í því sambandi væri fyrst og fremst litið til þess að frumvarpið væri ekki talið uppfylla það að öryggi á fiskiskipum væri tryggt með fullnægjandi hætti.

Í ljósi framangreinds telur meiri hlutinn því mikilvægt að árétta að með frumvarpinu er stigið mikið framfaraskref í átt að auknu öryggi til sjós. Þó sé ljóst að ráðast þurfi í heildstæða skoðun á mönnun fiskiskipa með það fyrir augum að bæta vinnuumhverfi meðal háseta og réttindamanna enn frekar. Að mati meiri hlutans kemur það þó ekki í veg fyrir samþykkt frumvarps þessa.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.“

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Bjarni Jónsson, sú sem stendur hér, Njáll Trausti Friðbertsson og Orri Páll Jóhannsson.