Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[23:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (fjöldatakmörkun rafmagnsbifreiða o.fl.).

Með frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem ætlað er að gilda tímabundið. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts til björgunarsveita vegna vinnu við að sérútbúa ökutæki björgunarsveita til björgunarstarfa. Í öðru lagi er lagt til að fjölga rafmagnsbifreiðum sem hafa fengið niðurfellingu virðisaukaskatts og kveða á um ný fjárhæðarmörk þeirrar heimildar. Í þriðja lagi er lögð til breyting að því er varðar heimild til að undanþiggja tiltekna fjárhæð frá skattskyldri veltu við endursölu á vistvænum bifreiðum.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hlutinn árétta sérstaklega að það er markmið ríkisstjórnarinnar að fjöldi rafbíla og annarra vistvænna bifreiða á Íslandi verði orðinn 100.000 árið 2030. Þá er gert ráð fyrir því í stjórnarsáttmálanum að full orkuskipti verði eigi síðar en árið 2040. Mikilvægt er því að stuðla að orkuskiptum í fólksbifreiðaflotanum og er fyrirliggjandi frumvarp skref í þá átt. Þær heimildir sem verið hafa í lögum í langan tíma eða tæpan áratug um lægri virðisaukaskatt af rafmagnsbifreiðum hafa spilað stórt hlutverk í orkuskiptum í fólksbifreiðaflotanum og mikilvægt er því að halda áfram í þá átt og er framlenging aðgerða sem þessara byggð á reynslu og góðu árangursmati.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingu á frumvarpinu til að unnt verði að niðurfella virðisaukaskatt af léttum bifhjólum svo sem nánar er greint frá í nefndaráliti og vísast til greinargóðrar umfjöllunar þar um í nefndarálitinu.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með áðurnefndri breytingu.

Undir álit meiri hlutans rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir