Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  15. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[00:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp um niðurfellingu virðisaukaskatts á svokallaða hreinorkubíla, sem er viðbót upp á 5.000 bíla til viðbótar við þá 15.000 sem veittur hefur verið afsláttur af. Ég verð að játa að ég hef blendnar tilfinningar gagnvart þessu frumvarpi og hef eiginlega haft það alveg frá byrjun og hefur bara liðið þannig að mér finnst ekki rétt að eyða þeim fjármunum sem þarna um ræðir í þessa niðurgreiðslu á þessum tímapunkti. Talið er að kostnaðurinn við þetta geti numið einhverjum 5,5–5,7 milljörðum og ég er ekki alveg viss um að það sé rétt forgangsröðun, bæði þá peningalega séð en ekki síður umhverfislega.

Það er hægt að nálgast þetta mál á marga vegu. Er þetta besta leiðin, erum við að nýta peningana á sem bestan hátt til að draga úr mengun? Fólk er ekki sammála um að þetta sé endilega besta leiðin. Vissulega fengum við jákvæðar umsagnir frá þeim sem hafa hagsmuni af því að þetta sé með þessum hætti. En við fengum líka umsagnir eða alla vega umsögn á þann veg að þetta væri kannski ekki endilega rétta aðferðin sem hægt væri að beita til að draga úr mengun.

Helstu efni þessa frumvarps eru að það eigi að veita afslátt af 5.000 bílum en að sá afsláttur gæti síðan flætt á notaða bíla í framhaldinu sem hefur jákvæð áhrif þegar bílaleigur ætla að fara að selja þessa bíla og mun hjálpa þeim til að koma þeim á markað á ásættanlegu verði.

En það sem mér finnst skipta meginmáli í þessu, og kem til með að styðja, er niðurgreiðsla á virðisaukaskatti til björgunarsveita, sem mér finnst vera það jákvæða í þessu frumvarpi og mun styðja það.

Þeir sem voru jákvæðir gagnvart þessu höfðu mikla fjárhagslega hagsmuni af því að fá til afnota þessa bíla. Það er hægt að færa fyrir því rök að þessir bílar mengi lítið en það er talað um að þegar þarf að fara að eyða þeim þá fylgi því töluverð mengun. Það fylgir þeim líka mengun til jafns við aðra bíla þegar þeir eru komnir út á vegina og eru komnir á nagladekkin og það fylgir þeim líka svifryksmengun inni í miðborg en þessir bílar hafa notið ekki bara lækkunar á virðisaukaskatti heldur líka afsláttar af bifreiðagjöldum vegna þess að þeir menga minna. Síðan eru þeir, þegar þeir eru að kaupa jarðefnaeldsneyti, ekki að leggja til þá fjármuni sem ætlað er í að fara í að byggja upp samgöngukerfið okkar því þeir kaupa bara ekkert jarðefnaeldsneyti. Þeir eru undanskildir ýmsu hvað þetta varðar.

Mig langar, virðulegur forseti, að nefna hér eina umsögn sem við fengum frá Ungum umhverfissinnum og, með leyfi forseta, langar mig að fá að lesa eilítið úr þessari umsögn:

„Ungir umhverfissinnar gera tvær athugasemdir við þetta lagafrumvarp. Fyrsta gagnrýni okkar varðar innihald frumvarpsins og viljum við að fjármagni sé varið á skynsamari hátt heldur en í niðurgreiðslu á rafmagnsbílum til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL). Seinni gagnrýni okkar varðar umsagnarferlið þar sem okkur finnst of stutt að umsagnarbeiðni berist einungis þremur dögum fyrir umsagnarfrest.“

Það sem skiptir máli fyrir mig í þessu er að hér segir segja Ungir umhverfissinnar:

„Nauðsynlegt er að fara vel með peninga ríkisins sem er í raun peningur almennings. Besta leiðin til að ná fram samdrætti í losun GHL er ekki með niðurgreiðslu á rafmagnsbílum ef miðað er við hlutfall króna per tonn CO2-íg. Þó að grunnhugsunin sé góð þar sem hún snýr að því að draga úr losun GHL er mun skilvirkara og efnahagslega skynsamlegra að verja þessum fjármunum í aðgerðir sem draga meira úr losun per krónu úr ríkissjóði. Einnig mætti beita öðrum efnahagslegum tólum svo sem gjaldtöku eða skattlagningu í auknum mæli til að ná fram fælingarmætti sem bæði eykur áhrif hvata aðgerða sem og tryggir meira fjármagn í loftslagsaðgerðir.

Í greinargerðinni sem fylgir þessu frumvarpi kemur fram að markmið ríkisstjórnarinnar sé að fjöldi rafbíla og annarra vistvænna bifreiða á Íslandi verði orðinn 100.000 árið 2030. Þetta markmið er ekki ásættanlegt. Markmiðið á ekki að vera að ná ákveðnum fjölda bíla inn til landsins heldur ætti það miklu frekar að leggja áherslu á það að draga úr notkun og innflutningi bila. Þetta er byggt á þeim einföldu rökum að framleiðsla, notkun og förgun eða endurvinnsla á rafmagnsbílum hefur víðtæk umhverfisáhrif með sér í för. Markmiðið ætti miklu frekar að vera að fækka heildarfjölda bíla á Íslandi og að hlutfall rafmagnsbíla sé orðið ákveðið hátt árið 2030.“

Þetta er sjónarmið sem mér finnst bara eiga rétt á sér sem og það sjónarmið sem kom fram í áliti Flokks fólksins hérna áðan um að þetta sé ekki endilega rétt forgangsröðun þegar við erum að skera við nögl aðgerðir sem snúa að tekjulægstu hópunum, og við gerðum m.a. athugasemdir við að atvinnulaust fólk hefði ekki fengið þessa 3% hækkun sem þeir sem eru að fá greitt úr tilfærslukerfunum fengu þó. Ég vil alla vega halda þessum sjónarmiðum til haga hvað þetta varðar.

Ég hef vegna þessarar skoðana minna óskað eftir því að það fari fram atkvæðagreiðsla um sitthvorn liðinn þannig að ég geti þá í það minnsta stutt lið nr. 1 þó að ég styðji ekki lið nr. 2. Ég ákvað að skila ekki nefndaráliti af því að ég veit að ekki allir þingmenn Viðreisnar eru sammála mér í málinu en Viðreisn er það frjálslyndur flokkur að hann leyfir að við séum ekki öll sammála alltaf. Ég mun þá þegar til afgreiðslu kemur styðja það að almannaheillasamtök eins og björgunarsveitir fái þessa niðurgreiðslu en mun ekki greiða atkvæði með þessu hérna og heldur ekki á móti. Þetta er mál sem ég er ekki öruggur með að styðja á þessum tímapunkti af því að mér finnst þetta hvorki vera rétt forgangsröðun né endilega rétta leiðin til að draga úr mengun.