132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Þýðingar kjarasamninga á erlend tungumál.

617. mál
[12:32]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé afar mikilvægt nú á þessum tímum alþjóðavæðingar þar sem erlendu starfsfólki fjölgar sífellt hér á landi, því fjölgar mjög hratt, að stjórnvöld séu vakandi fyrir þörf útlendinga til að hafa aðgang að þeim lögum og reglum sem hugsanlega kunna að skipta máli á þeirra eigin tungumáli, þannig að þessir hlutir þurfi ekkert að fara neitt á milli mála.

Að sjálfsögðu þarf líka að skoða þetta með kjarasamninga. Ég veit að það er mikil eftirspurn eftir slíkum upplýsingum frá útlendingum sem hér starfa. Ég ræddi nýverið við formann verkalýðsfélagsins á Akranesi, Vilhjálm Birgisson, og hann tjáði mér t.d. að verkalýðsfélagið á Akranesi hefði nýlega auglýst íslenskunámskeið fyrir útlendinga og strax voru komnir 18 á skrá og listinn fullur og sennilega verður verkalýðsfélagið að halda annað námskeið í íslensku. Hann sagði líka að það væri mjög mikið vandamál ef verkamenn hefðu ekki aðgang að kjarasamningum á sínu eigin tungumáli, nefndi þar til að mynda pólsku en Litháar væru líka í vandræðum. Þarna er mikil þörf og við verðum (Forseti hringir.) að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi eftir því sem hægt er.