133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[11:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um frumvarp sem lýtur að stjórn fiskveiða og kveður á um byggðakvóta, úthlutunaraðferðir til að úthluta byggðakvóta til þeirra sjávarbyggða sem hafa farið sérstaklega halloka, m.a. út af núverandi fiskveiðistjórnarkerfi eða kvótakerfinu. Þetta er eina leiðin sem Alþingi hefur enn til að koma til móts við brýnar þarfir, koma til móts við möguleika til nýliðunar í fiskveiðum í gegnum byggðakvóta.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum þetta mál en höfum náttúrlega þann fyrirvara á að heildarfiskveiðistjórnarkerfi er ranglátt. Það kemur hart niður á smærri sjávarbyggðum sem eiga allt sitt undir því að geta nýtt auðlindirnar sem eru fyrir ströndum landsins, (Forseti hringir.) íbúunum öllum til heilla.