135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skólagjöld í háskólum -- efnahagsspár -- hvalveiðar.

[14:01]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það má segja að vorboðarnir svokölluðu í hvalveiðimálunum séu komnir á kreik, reyndar nokkuð seint á ferðinni þetta vorið enda hefur æti þeirra verið rýrt á undanförnum árum. Ég vil nota þennan stutta tíma til að fara yfir nokkrar staðreyndir í 20 ára sögu þessa máls.

Það var árið 1986 sem vísindaveiðar hófust hér á landi og þær stóðu í fjögur ár eftir að hvalveiðibann tók gildi. Fullyrt var að markaðir fyrir sjávarafurðir ættu eftir að hrynja, sérstaklega í Bandaríkjunum. Staðreyndin er sú að árin 1986, 1987 og 1988 voru einhver bestu ár sem þá höfðu komið í útflutningi sjávarafurða, sérstaklega til Bandaríkjanna.

Árið 1992 gekk Ísland úr Alþjóðahvalveiðiráðinu til að mótmæla vinnubrögðum þess. Fullyrt var að það ætti eftir að hafa mjög neikvæð áhrif á samskipti okkar og viðskipti á alþjóðamarkaði. Staðreyndin er: Það gekk ekki eftir, Ísland var áfram þátttakandi sem áheyrnarfulltrúi á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Árið 1999 samþykkti Alþingi þingsályktun um hvalveiðar með miklum meiri hluta. Ef ég man rétt voru sjö þingmenn andvígir. Hv. þm. Mörður Árnason telur hana úrelta. Það sama má segja um hvalveiðibannið sem tók gildi 1986 og átti að falla úr gildi árið 1990 í síðasta lagi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Alþingi mundi afgreiða með sama hætti og gert var 1999 sambærilega tillögu um hvalveiðar.

Árið 2003 gengum við í Alþjóðahvalveiðiráðið aftur og þá hófust vísindaveiðar á hval. Fullyrt var að allt ætti eftir að fara til fjandans, sérstaklega í ferðaþjónustu og útflutningi. Staðreyndin er sú að ekki hefur í annan tíma verið eins mikil aukning á ferðamönnum til landsins og það hafa verið metár í hvalaskoðun ár eftir ár. Vísindaveiðar héldu áfram til ársins 2007 og atvinnuveiðar til 2006 og 2007. Fullyrt var að allt mundi síga á ógæfuhliðina, hvalaskoðun, ferðaþjónusta og útflutningur. Staðreyndin er: Veiðar gengu vel, ferðaþjónusta aldrei betur, Íslendingar taka vel á móti hvalkjöti og útlendingar elska að borða hvalkjöt á tugum veitingastaða um allt land. Nokkrar aðrar fullyrðingar: Hvalastofnar eru sterkir, sjálfbær nýting að sjálfsögðu, (Forseti hringir.) hvalastofnar hafa umtalsverð áhrif á nytjastofnana, hvalafurðir eru góð og holl viðbót við fæðuflóru okkar, góðir markaðir eru fyrir hvalafurðir. Er ekki mál að linni ómálefnalegri umræðu?