135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:36]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu máli sem er togararallið sem eins og allir vita skiptir mjög miklu máli þegar verið er að leggja á ráðin um stöðu fiskstofna og ákvarðanir um heildarafla á næsta fiskveiðiári. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að þótt þessi rannsókn skipti miklu máli liggur hvorki fyrir hin endanlega fiskveiðiráðgjöf né mat á stöðu fiskstofna og það mun ekki verða fyrr en í byrjun júnímánaðar og þá fyrst verður hægt að hefjast handa við að taka afstöðu til þess.

Þetta togararall færir okkur í raun og veru ekki mjög mikil tíðindi. Það kemur fram í gögnum Hafrannsóknastofnunar að stofnunin telji að þetta staðfesti nokkuð mat hennar á síðasta ári. Það er hins vegar þannig, og er engin ástæða til að gera lítið úr því eins og sumir hafa stundum reynt að gera, að þetta togararall færir líka með sér örlítinn vonarneista um einhverjar jákvæðar breytingar. Það eru engar vísbendingar í þessu ralli um stórkostlegan bata en ég tel að vísbendingarnar séu þó frekar í rétta átt. Í fyrsta lagi höfðum við séð þyngdarminnkun í þorskstofninum undanfarin ár en hér kemur fram að því er ekki að heilsa núna heldur sjáum við sem betur fer frekar þyngdaraukningu í stað stöðugrar þyngdarminnkunar. Í öðru lagi kemur fram, sem líka hlýtur að skipta okkur máli og getur haft áhrif á stöðu hrygningarstofnsins, að vísitala 9–12 ára fisks er hærri nú en í fyrra og tvisvar sinnum hærri en að meðaltali 2001–2006. Af hverju skiptir þetta máli? Þetta skiptir máli af því að það er vísbending um að hrygningarstofninn kunni að vera að stækka. Það hefur oft verið deilt um hvort samhengi sé milli hrygningarstofns og nýliðunar og það er alveg rétt að á einhverjum tímapunkti hefur ekki verið hægt að sýna fram á það, en það er alla vega ljóst að þegar hrygningarstofninn er kominn mjög neðarlega hefur það sannarlega neikvæð áhrif á nýliðunina. Þetta skiptir máli og við vitum líka að eldri fiskur gefur af sér betri hrygningu.

Þegar togararallið sem hér er gert að umræðuefni var undirbúið fór það þannig fram að kallaðir voru saman sérfræðingar Hafró og sjómenn og útvegsmenn og þar var í raun og veru búið til töluvert viðurhlutameira togararall, eins og ég hef oft farið yfir. Bætt var við einum 50 togpunktum, bæði á grunnslóð og líka á djúpslóð, og það var gert í samráði við skipstjóra sem höfðu gagnrýnt mjög hvernig staðið hafði verið að þessu ralli.

Það er líka verið að fara yfir ýmsar forsendur varðandi val á veiðarfærum. Við þekkjum þá gagnrýni sem oft hefur verið uppi um það að ekki hafi verið staðið eðlilega að vali á veiðarfærunum sem notuð hafa verið í rallinu og því er verið að fara yfir það.

Varðandi ýsuna sem hv. þingmaður talaði um áðan þá vitum við að ýsan hefur verið gríðarlega sterk á undanförnum árum og við höfum í raun séð hvert metárið á eftir öðru í útgefnum kvótum í ýsu. Ætli þeir hafi ekki þrefaldast frá því fyrir fáeinum árum síðan? Og hvað ýsuna varðar hefur líka verið einna mikilvægastur í því sambandi hinn gríðarlega sterki 2003 árgangur sem slær öllu við og er langt yfir öll söguleg mörk sem við þekkjum. Það er hins vegar ekki svo að þetta togararall sé vísbending um að ýsustofnar séu að hrynja. Við vissum að ekki væri endalaust hægt að ganga á 2003 árganginn án þess að það hefði einhver áhrif á veiðina til lengri tíma eða útgefna kvóta. En samkvæmt þeim gögnum sem við höfum fyrir framan okkur bendir allt til þess að við verðum áfram með gríðarlega sterkan ýsukvóta sem ætti þess vegna að geta gefið okkur vonir um góða veiði.

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að eins og sakir standa færir þetta togararall okkur í sjálfu sér ekki mjög mikil tíðindi. Eins og ég sagði áðan eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Það er t.d. athyglisvert — af því að við ræddum hér mjög mikið fyrr á þessu ári málefni loðnunnar og hvernig staðið var að loðnuveiðum — að hér kemur fram að heldur meira hafi verið af loðnu í þorskmögum en undanfarin ár. Það kemur líka fram að lifrarstuðullinn hafi verið hærri en áður og allt þetta ætti að vera vísbending um það að fiskurinn sé eitthvað betur haldinn. Þetta eru jákvæð teikn sem rétt er að halda til haga þó að ég sé ekki að segja að þetta togararall færi okkur gríðarleg tíðindi.