135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:45]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Enn einu sinni ræðum við hér mál sem er okkur öllum ofarlega í huga og skiptir þjóðarbúið miklu máli, þ.e. að það takist að efla þorskstofninn þannig að veiðar geti aukist. Það hefur gríðarleg áhrif á þjóðarhag og á atvinnuástandið, ekki síst á landsbyggðinni. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að í vorralli Hafró væri vonarneisti um betri stöðu. Það er þó alla vega einhvers virði að heyra hæstv. ráðherra segja það. En auðvitað hefðum við viljað að miklu meira af jákvæðum fréttum bærust eftir að sá leiðangur var farinn.

Ég vil lýsa ánægju með að gerð hefur verið ákveðin breyting á togararallinu. Ný svæði hafa verið tekin inn og það er til bóta. Það gerir það að verkum að maður hefur meiri trú á því að meira sé að marka þessa rannsókn, þetta svokallaða vorrall, en kannski oft hefur verið. Ég get tekið undir það, sem hér hefur komið fram, að maður fær mjög miklar fréttir af gríðarlega mikilli fiskgengd og þeim sem starfa við þessa atvinnugrein þykir súrt í broti að geta ekki veitt meira þegar þeir horfa upp á ástandið jafngott og raun ber vitni.

Ég held að ríkisstjórnin ætti að leita í smiðju til Framsóknar og kíkja á mótvægisaðgerðirnar sem við lögðum til hér á dögunum og vita hvort þær geti ekki komið að gagni í sambandi við frekari mótvægisaðgerðir (Forseti hringir.) en þær sem kynntar hafa verið fram til þessa, þær eru nefnilega frekar veikar.