136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:43]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um mikilvæg mál sem hæstv. viðskiptaráðherra mun nú fjalla um í þinginu í dag, hefur þegar fjallað um eitt þeirra en tvö eru eftir.

Ég er alveg sammála því og sagði í ræðu minni að í góðu árferði mundi ég fagna þessum frumvörpum. Það sem ég lagði áherslu á í ræðu minni er að í því árferði sem við lifum núna og á þeim stutta tíma sem er til kosninga þurfum við ekki eins mikið á því að halda að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir eins og að ráðast í kjarnamálin, ráðast í þau mál sem skipta mestu til þess að bankakerfið okkar geti virkað. Þess vegna gagnrýni ég það að hæstv. viðskiptaráðherra, og bankamálaráðherra þar með, skuli koma með þessi mál en ekki þau sem tengjast því að hér sé öflugt bankakerfi, eins hreint og það getur verið í núverandi stöðu, bankakerfi sem stuðlar að því að fyrirtækin okkar í landinu geti starfað, fólkið okkar haldi störfunum og heimilin geti haldið áfram að sinna hlutverkum sínum.