138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

fundur utanríkisráðherra Norðurlanda.

[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því við utanríkisráðherra að hann greini þinginu nánar frá fundi sínum með utanríkisráðherrum Norðurlandanna sem átti sér stað í Kaupmannahöfn 11. mars sl. Nú er beðið endurskoðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á lánafyrirgreiðslu til Íslands og það verður ekki skilið öðruvísi en svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé þeirrar skoðunar að það sé engin ástæða til að tengja það við Icesave-málið. Fáist fjármögnun frá Norðurlöndunum er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilbúinn eins og sakir standa til að fara í gegnum þessa endurskoðun og greiða út næsta hluta lánanna eins og lánsfjárþörfin er metin. En afstaða Norðurlandanna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsfyrirgreiðslunnar skiptir afar miklu því að ef Norðurlöndin hafa áfram tengingu við lausn Icesave-deilunnar gerist ekkert hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það voru ánægjuleg tíðindi sem okkur bárust eftir fund hæstv. utanríkisráðherra frá norska utanríkisráðherranum sem sagðist ekki lengur gera nein tengsl milli þessara mála, en það er meira vafamál með aðra norræna ráðherra eða aðrar norrænar ríkisstjórnir. Ég vil inna hæstv. utanríkisráðherra eftir þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundi hans með þessum utanríkisráðherrum. Hvað veldur því að norrænu ríkin, frændþjóðir okkar, vilja gera afgreiðslu Icesave-málsins að skilyrði þess að þær haldi áfram fjármögnun mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?