138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

fundur utanríkisráðherra Norðurlanda.

[15:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir að taka þetta mál upp. Það skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli að í þessu fáist farsæl niðurstaða. Hv. þingmaður les stöðuna alveg rétt. Það er alveg rétt hjá honum að Dominique Strauss-Kahn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur talað með þeim hætti, það er ekki hægt að skilja það öðruvísi, að ef fjármögnun á efnahagsáætlun fæst, og eins og við vitum er hún að helmingi til fjármögnuð frá Norðurlöndunum, sé okkur ekkert að vanbúnaði með að halda henni áfram.

Á þeim fundi sem hv. þingmaður spyr mig um og var að boði hins nýja utanríkisráðherra Danmerkur, var Icesave-málið fyrsta málið á dagskrá. Ég tók því boði og af öllum þeim atriðum sem voru á fundinum var Icesave-málið langmest rætt. Ég fór mjög nákvæmlega yfir stöðuna þar og sagði að þó að ég væri bjartsýnn á að við mundum ná lausn á Icesave hugsanlega innan skamms yrði að gera ráð fyrir öðru. Þess vegna skipti það öllu máli fyrir Ísland að Norðurlöndin stæðu nú með Íslendingum varðandi fjármögnun á AGS-áætluninni.

Í skemmstu máli kom það fram á þessum fundi og eftir fundinn að Norðmenn, sem við höfum átt í miklum samskiptum við, gera alveg skýran greinarmun á annars vegar AGS-áætlun og hins vegar Icesave. Þeir segja: Ef Íslendingar uppfylla þau tæknilegu skilyrði og þau skilyrði sem AGS setur, erum við reiðubúnir til að halda áfram þar sem frá var horfið. Sú afstaða sem kom fram hjá hinum Norðurlöndunum var enn sú að æskilegt væri að ganga frá Icesave áður. Það sem þau lögðu einkum fram sem rök fyrir afstöðu sinni eru þeir þinglegu textar sem samþykktir hafa verið í þingunum. Sumir eru þess eðlis að framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) telur sig ekki geta gengið lengra nema hugsanlega að þeim verði breytt.