138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

álverið í Straumsvík.

[15:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Orkan úr Búðarhálsvirkjun er vissulega hugsuð til þess að sinna þessari brýnu þörf. Það veldur mér því miklum vonbrigðum að það verk skuli ekki hafa verið boðið út í heild sinni, en útboð Landsvirkjunar nær eingöngu til um 3% af þeim framkvæmdum, eða um 750 milljóna af þeim 25 milljörðum sem áætlað er að sú framkvæmd muni kosta. Ég tel að við getum farið í þessa framkvæmd af fullum krafti og tel að það sé mjög mikilvægt. Ég er ekki tilbúinn að samþykkja þau rök hæstv. ráðherra að ekki sé hægt að fjármagna verkefnið vegna stöðu á lánsfjármarkaði. Lífeyrissjóðirnir hafa lýst sig reiðubúna til að fjármagna þessi verkefni og það er ekkert annað en að ljúka viðræðum við þá um fyrirkomulag á þeirri fjármögnun.

Forsvarsmenn Rio Tinto hafa lýst því yfir að þeir séu tilbúnir í þetta verkefni. Það hefur verið tekið fyrir í stjórn fyrirtækisins og samþykkt að fara í þetta verkefni. Ég vil því ítreka spurningar mínar til (Forseti hringir.) ráðherra um hvort henni sé kunnugt um að það séu einhverjir hnökrar á þeim viðræðum sem eiga sér stað á milli samningsaðila þannig að þetta verkefni geti farið á stað af fullum krafti.