140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

tengsl undirbúnings umsóknar um aðild að Evrópusambandinu og friðunar svartfugls.

585. mál
[16:58]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það er meginregla þegar umgengni við náttúruna er annars vegar að láta hana njóta vafans og beita varúðarsjónarmiðum og þá er ekki góður máti að ganga á stofna sem gengur illa af einhverjum ástæðum.

Þessi starfshópur er ekki stofnaður til að gera breytingar í þágu Evrópusambandsins heldur í þágu svartfugla við Ísland. Við gerum það sem við getum til að styrkja möguleikana til verndar. Til þess hefur verið lagt fram frumvarp til kynningar á vef umhverfisráðuneytisins. Það hefur ekki komið enn þá til þingsins þannig að því er til að svara varðandi fyrirspurn hv. þingmanns.

Rétt eins og hv. fyrirspyrjandi, Guðlaugur Þór Þórðarson, hef ég fengið margar athugasemdir frá mörgum hlunnindabændum og þeim sem þekkja þessa stofna vel og hafa verið í umgengni við þá kynslóðum og öldum saman. Af þeim sökum óskaði ég sérstaklega eftir því að tekin yrði saman skýrsla um þær umsagnir og áhyggjur til þess líka sérstaklega að skoða hvort möguleiki væri að beita staðbundnum aðgerðum. Það er nokkuð sem ég hef ekki tekið afstöðu til. Ég fékk þessa skýrslu í morgun og tel rétt að umhverfis- og samgöngunefnd fái hana til sérstakrar umfjöllunar.

Almennt vegna umræðunnar verðum við að gæta að þeirri stöðu að þetta snýst fyrst og fremst um hrun allnokkurra svartfuglastofna og þingmanninum til upplýsingar eru veiðar á þessum fimm tegundum óheimilar í Noregi. Noregur er ekki í aðildarferli að Evrópusambandinu.