141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forgangsröðun í ríkisfjármálum er sannarlega aðkallandi en annað sem er aðkallandi og ég hef oft gert að umtalsefni á þessu kjörtímabili er heildarsýn og langtímasýn í ríkisfjármálum. Það hefur algjörlega skort á það, eins og sést kannski einna best á þessu frumvarpi og þeim viðvörunum fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem hv. þingmaður vísaði í.

Hér lenda stjórnarflokkarnir í því að í frumvarpi sem ríkisstjórnin leggur fram þarf að fylgja ábending frá fjármálaráðuneytinu um að forsendur frumvarpsins standist ekki eða þá að eigi forsendur frumvarpsins að standast standist áætlanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum ekki. Það er auðvitað ákaflega óheppilegt fyrir ríkisstjórn að lenda í slíkri stöðu en hún er til komin vegna þess að skort hefur alla heildarsýn og alla langtímasýn þegar kemur að vinnu við fjárlög.

Til þess að hægt sé að leysa vandann og ráðast í fjárfestingar og útgjöld af hálfu ríkisins, sem annars vegar forgangsraða í þágu velferðarmála eins og hér er stefnt að, og hins vegar tryggja að þær ýti undir verðmætasköpunina sem nauðsynleg er til þess að fjármagna velferðina þarf tvennt til; annars vegar forgangsröðun í þágu þessara undirstöðuvelferðarmála og hins vegar að haga útgjöldum þannig og fjárfestingum að þær séu til þess fallnar að ýta undir verðmætasköpun til framtíðar. Upp á það hefur vantað verulega enda hefur fjárfesting verið í algjöru lágmarki á kjörtímabilinu og ekki orðið til þau verðmæti sem við hefðum getað búið til á undanförnum árum til að standa undir þessu.