141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og svara þeim atriðum sem spurt var um í umræðunni. Ég vil taka undir með öðrum hér að þetta hefur verið ágæt umræða, málefnaleg og góð. Mér fannst til dæmis mjög fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra fara yfir efnahagslegu áhrifin af þessari framkvæmd, arðinn sem ríkissjóður fær af auknum umsvifum, af fjárfestingu og uppbyggingu orkumannvirkja og lína og allt það — því höfum við ekki oft heyrt hann fagna á þessu kjörtímabili. Mig langar bara, og ég hljóma nú kannski eins og rispuð plata, að spyrja hæstv. ráðherra beint út hvort hann telji Bakka vera fordæmi fyrir Helguvík. Mér finnst þetta hafa farið dálítið fram og til baka.

Við á Suðurnesjunum höfum heyrt mikið af þessu núna. Samfylkingin hefur mikið verið að fjalla um þetta á vettvangi bæjarmálanna í Reykjanesbæ og formaður Samfylkingarinnar hefur látið hafa það eftir sér að þetta sé fordæmi, hv. þm. Oddný Harðardóttir var með fyrrnefnda grein í blaði þar syðra í dag, þar sem mátti skilja að þetta væri fordæmi. Samfylkingin í Reykjanesbæ lét bóka það sérstaklega á bæjarstjórnarfundi þannig að ég vildi bara heyra afstöðu hæstv. ráðherra og ítreka spurninguna: Telur ráðherra Bakka vera fordæmi fyrir Helguvík?