143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Það er ágætt að nefna í sambandi við greiðslujöfnunina og þann jöfnunarreikning sem þar var að það var til að minnka afborganir af lánunum. Ef höfuðstólsleiðréttingin verður fyrst notuð til að greiða upp greiðslujöfnunarsjóðinn og dugir rétt fyrir því mun ekki verða um að ræða neina breytingu hvað varðar afborganir eða greiðslubyrði af láninu.

Þegar við vorum að skoða þetta í fyrri ríkisstjórn var rætt um 110%-leiðina, sem var raunar 100%-leið, og þá var talað um muninn á greiðsluvanda og skuldavanda. Það kom í ljós hjá þeim sem voru hjá Íbúðalánasjóði að næstum því helmingur, ég held að það hafi verið 35–45%, af afborgunum af lánum voru vegna annarra lána en húsnæðislána. Meðaltal afborgana af húsnæðislánum hjá Íbúðalánasjóði voru 90 þús. kr. á mánuði, en menn voru að borga allt upp í 150–170 (Forseti hringir.) þúsund vegna annarra lána. Sér hv. þingmaður að þetta úrræði leysi þann vanda?