144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

skýrsla um aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014.

564. mál
[16:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Nú er ég kominn með blöðin sem urðu eftir í sætinu mínu áðan svoleiðis að ég get haldið áfram með þessa ræðu. Það er raunar miklu fleira sem ég hefði haft áhuga á að ræða í þessu máli en tími mun gefast til svoleiðis að það er enn ein ástæðan til að drífa í því að við förum að ræða skýrsluna í þinginu.

Við samþykkt áætlunarinnar í fyrravor, nánar tiltekið 22. maí 2014, lá fyrir að þá þegar hefði verið brugðist við ýmsum markmiðum í stefnu ráðsins. Í stöðuskýrslunni er gerð grein fyrir stöðu 19 aðgerða sem sumar hverjar eru í nokkrum liðum. Aðgerðirnar eru misumfangsmiklar, allt frá því að koma tilmælum á framfæri bréfleiðis upp í það að Alþingi, sem hefur fjárveitingavaldið, samþykki auknar fjárveitingar til samkeppnissjóða. Við utanumhald forsætisráðuneytisins á áætluninni hefur komið í ljós að tímamörk þau sem aðgerðunum voru sett voru í ýmsum tilfellum helst til þröng og þar af leiðir að framkvæmd þeirra mun taka mið af því.

Frá því að aðgerðaáætlunin var samþykkt hefur sex aðgerðum þegar verið lokið. Þetta eru aðgerðir 1.5, 3.2 og 4.3 sem allar snúa að ábendingum til stjórna opinberra samkeppnissjóða. Bréf var sent á sjóðina í febrúar sl. Aðgerð 2.4. er einnig lokið, en hún snýr að því að auðvelda fyrirtækjum að nýta sér starfskraft rannsakenda úr hópi nemenda háskóla sem hafa leyfi til að bjóða upp á rannsóknartengt framhaldsnám. Aðgerð 2.6, um að afgreiðsla umsókna sérfræðimenntaðra einstaklinga utan EES um dvöl og atvinnuleyfi hjá Útlendingastofnun taki ekki meira en sex vikur að hámarki, er einnig lokið því að árið 2014 innleiddi Útlendingastofnun nýtt verklag og er meðalafgreiðslutíminn nú rétt undir sex vikum. Ætlunin er að stytta hann enn á þessu ári. Loks er einnig lokið aðgerð 4.4, um að bæta hagtölugerð um íslenskt atvinnulíf með tilliti til rannsókna, verðmætasköpunar, útflutnings og nýsköpunar og nýta hagtölur til stöðugra umbóta í menntun, vísindum og nýsköpun.

Fjölmargt annað mundi ég gjarnan vilja ræða, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, ef tími gæfist til en ítreka það sem ég sagði áðan, ég lít á það sem enn eina hvatninguna til þess að verða við ósk hv. þingmanns um að taka þessa skýrslu hér til umræðu sem fyrst en hvet þingmenn til að kynna sér hana á vefsíðu ráðuneytisins í millitíðinni.