150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

nýr aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar.

[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég tek undir með ráðherra, ég held að við þurfum líka að huga að því sem Danir gerðu, reyndar í þverpólitísku samkomulagi. Ég hvet þó ríkisstjórnina til að huga að því að við í þinginu þurfum líklega að framlengja hlutastarfafyrirkomulagið með einhverjum hætti, framlengja þær úrbætur.

Ég tel líka í ljósi orða hæstv. ráðherra að núna skipti lykilmáli að við höldum fyrirtækjunum á lífi til að viðspyrnan verði nægjanleg, vonandi ekki síðar en í haust, þannig að við höfum fyrirtæki sem fara aftur af stað með efnahags- og atvinnulífið, samhliða þeirri viðspyrnu sem verður að vera. Þess þá heldur verða leikreglur að vera skýrar, samhliða þeim ákvörðunum um aðgerðir sem við í Viðreisn styðjum stjórnina til að gera. Gegnsæið verður að vera algjört því að hluti af því að krafturinn í viðspyrnunni verði meiri í haust með fyrirtækjunum og heimilunum er að þær aðgerðir sem við grípum til vegna þeirra fyrirtækja sem við erum að miðla fjármagni til séu trúverðugar, að traust ríki um viðspyrnuna og þannig verði krafturinn meiri. Ég beini því til hæstv. ráðherra að við höfum leikreglurnar skýrar varðandi uppbygginguna strax frá fyrsta degi.