150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

launahækkun þingmanna og ráðherra.

[15:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég vildi geta sagt að mér þætti leiðinlegt að hafa pirrað hæstv. fjármálaráðherra en mér þykir það bara ekkert leiðinlegt. Hæstv. fjármálaráðherra (Gripið fram í.) pirrast yfir minnstu hlutum, en mér finnst leiðinlegur þessi orðhengilsháttur, að ég noti ekki rétt orð og það á einhvern veginn að lagfæra það. Þetta snýr ekki að því hvaða orð maður notar. Það stendur vissulega í lögum að það eigi að vera launahækkun þingmanna og ráðherra 1. janúar. Ég veit vel að það hefur átt sér stað. Spurning mín snýr hins vegar ekki að því. Þetta eru ekki eðlilegir tímar. Við erum ekki að tala um að þetta séu eðlilegir tímar og að við eigum rétt á okkar eðlilegu launahækkun. Ég veit að ráðherra tók ekki ákvörðun um þessar launahækkanir, þetta er vísitöluhækkun, en við þurfum samt að taka ákvörðun um hvort við ætlum að vera í sama báti og almenningur er akkúrat núna eða hvort við eigum að fá okkar launahækkanir á meðan aðrir fá skerðingar. Það er spurningin sem ég vil spyrja. Hver er afstaða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til þeirrar kröfu að þingmenn og ráðherrar hækki ekki í launum á sama tíma og við stefnum beinustu leið í djúpa efnahagskreppu? Það er raunin, þessi launahækkun felur í sér að við hækkuðum í launum. Hún var ekki framkvæmd á réttum tíma þannig að það á að framkvæma hana núna 1. maí. Þá fáum við peninga á bankareikning okkar og við erum að hækka í launum. Er eðlilegt (Forseti hringir.) á þessum tímum að við hækkum í launum? Eigum við ekki að vera í sama báti, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, með öllum almenningi í landinu? Það er spurning mín.