150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

vextir og verðtrygging.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að þetta ætti ekki að vera neitt mál af því að enginn gerir ráð fyrir verðbólgu hvort eð er. Þetta er einfaldlega stórmál. Það er einhver viðtakandi vaxta og verðbóta á hinum endanum og það vill þannig til að þar fara lífeyrisþegarnir í landinu fremstir í flokki. Ef menn vilja taka þessa hluti úr sambandi til framtíðar verða menn að svara því hvernig eigi að bregðast við ef á þetta reynir. Við gætum alveg eins tekið frá tíma í aðra umræðu til að ákveða hver verðbólgan er. Af hverju gerum við það ekki? Það ætti ekki að vera mikið mál. Þetta er bara einhver mælistika sem við höfum ákveðið að skrifa inn í lög. Af hverju tökum við ekki bara ákvörðun um að á Íslandi verði á næstu árum bara 1% verðbólga? Hvers vegna ekki? Við gætum líka ákveðið að hafa 15 stiga hita að jafnaði.

Það er ekki hægt að nálgast þessa umræðu svona. Ef við ætlum að vaða inn í alla þá fjármálagerninga sem hafa þegar verið gefnir út og eru grundvöllurinn að kjörum lífeyrisþega í landinu og ætlum að kippa því úr sambandi þurfum við að svara spurningunni: Hvaða afleiðingar á það að hafa fyrir lífeyrisréttindin?