150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

aukin fjölbreytni atvinnulífsins.

[15:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Ég eins og fleiri ber nokkurn kvíðboga fyrir framtíðinni vegna þess að við stöndum frammi fyrir miklum bráðavanda sem þarf að takast á við en jafnframt vegna þess við stöndum, held ég, á talsvert miklum tímamótum þar sem fyrir höndum er að byggja upp traust og sterkt atvinnulíf til framtíðar. Við höfum í gegnum tíðina gengið í gegnum alls kyns sveiflur. Margar þeirra má rekja til þess að við búum við einhæft atvinnulíf. Þetta vitum við og höfum vitað lengi og við höfum oftar en ekki strengt þess heit að nú skuli gera bragarbót á.

Í kjölfar hrunsins 2008 kom út vönduð skýrsla frá McKinsey árið 2012 sem lagði línurnar um vaxtarvegferð fyrir Ísland þar sem átti að byggja á hugvitsdrifnum útflutningi. Í lok þessa árs, þegar WOW fór á höfuðið, gaf AGS út álit og ítrekar þar enn að við verðum að byggja upp til framtíðar á öðru en hinum hefðbundnu atvinnugreinum okkar. Þrátt fyrir að allt þetta hefur okkur ekki tekist að auka svo neinu nemi útflutning á hugviti né fjölga störfum í þeim greinum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún deili ekki þeirri skoðun að nú sé tækifæri og ekki bara tækifæri heldur brýn nauðsyn til þess að takast á við það verkefni að skjóta fleiri, styrkari og fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf.