150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins inn á það sem mér finnst vanta í þetta frumvarp. Hér er verið að breyta ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og lýtur sérstaklega að meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum. Í því sambandi finnst mér vanta að taka á úrræðinu um greiðslustöðvun. Það hefði átt að nota tækifærið og breyta lögum um gjaldþrotaskipti á þann veg að allur vafi væri tekinn af um að hægt væri að leita greiðslustöðvunar vegna heimsfaraldurs.

Ef ég vík aðeins að greiðslustöðvun sem slíkri þá er hér um lögbundið úrræði að ræða sem nýst getur skuldara sem á í tímabundnum greiðsluerfiðleikum. Um er að ræða úrræði sem skuldari sem á í verulegum fjárhagserfiðleikum á kost á að nýta sér til að freista þess að koma á nýrri skipan á fjármál sín. Greiðslustöðvun hefur þau áhrif að skuldari nýtur tiltekinnar verndar gagnvart lánardrottnum sínum meðan á greiðslustöðvun varir. Þannig verður bú skuldara ekki tekið til gjaldþrota að kröfu kröfuhafa meðan á greiðslustöðvun stendur, eignir hans verða ekki kyrrsettar og ekki verður gert fjárnám hjá skuldara.

Greiðslustöðvun felur í sér tímabundna vernd skuldara gegn vanefndarúrræðum kröfuhafa. Á undanförnum árum hefur lítið reynt á greiðslustöðvun sem úrræði til að leysa skuldavanda fyrirtækja en er skilvirkt og getur skilað góðum árangri.

Herra forseti. Nú sjá mörg fyrirtæki fram á lausafjárskort, einkum fyrirtæki í ferðaþjónustunni, og það mun síðan leiða af sér greiðsluvanda og vanskil. Greiðslustöðvun og tímabundin vernd frá kröfuhöfum getur nýst þessum fyrirtækjum mjög vel. Fyrirtæki sem eingöngu stendur frammi fyrir tímabundnum greiðsluvanda vegna óvenjulegra ófyrirséðra aðstæðna, eins og veirufaraldursins, á að geta leitað allra leiða til að koma í veg fyrir gjaldþrotaskipti. Greiðslustöðvun er því í slíkum tilvikum þýðingarmikið úrræði.

Í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er mælt fyrir um að skuldarar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, sem eigi í verulegum fjárhagsörðugleikum og vilji freista þess að koma nýrri skipan á fjármál sín geti leitað heimildar til greiðslustöðvunar. Í greinargerð með beiðni um greiðslustöðvun skal m.a. koma fram ítarleg greinargerð skuldarans um hvað valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hans, í hverju þeir felist, hvernig hann hyggist leysa úr þeim með heimild til greiðslustöðvunar og hvern hann hafi ráðið sér til aðstoðar. Það er því alls ekki einfalt að óska eftir greiðslustöðvun og þarf að uppfylla þröng skilyrði.

Þá er ég kominn að því sem ég tel mjög æskilegt við þær fordæmalausu og erfiðu aðstæður sem við glímum við núna, að þetta verði einfaldað í lögunum og tekinn verði af allur vafi um það að þær aðstæður sem við erum í núna falli undir skilyrði greiðslustöðvunar. Í 2. mgr. 12. gr. laganna eru talin upp þau atriði sem gera það að verkum að héraðsdómara er skylt að synja um heimild til greiðslustöðvunar. Þannig ber að synja um greiðslustöðvun ef ráðagerðir skuldarans um ráðstafanir meðan á greiðslustöðvun stendur verða ekki taldar heimilar eða samrýmast tilgangi hennar og ekki taldar raunhæfar eða líklegar til að koma nýrri skipan á fjármál hans.

Með öðrum orðum er úrræðinu um greiðslustöðvun ætlað að leysa ástand þar sem skuldari ræðst í tilteknar aðgerðir til að leysa úr fjárhagsörðugleikum. Eins og staðan er í samfélaginu í dag er ekki hægt að ráðast í neinar aðgerðir vegna þess að það eru ekki að koma neinar tekjur inn, eins og hjá ferðaþjónustunni. Það er einfaldlega verið að bíða eftir því að ástandið lagist og hingað komi ferðamenn á ný og tekjur komi inn í þessi tilteknu fyrirtæki.

Við erum stödd í fordæmalausum aðstæðum, eins og ég nefndi, vegna farsóttar og ný staða kemur upp nánast á hverjum degi. Það er nánast ógerlegt fyrir fyrirtæki og einstaklinga að tilgreina raunhæfar aðgerðir til að fá samþykkta greiðslustöðvun eins og lögin kveða á um miðað við ástandið eins og það er og óvissuna fram undan. Þess vegna er afar brýnt að fá þetta á hreint. Ég spurði hæstv. ráðherra fyrir nokkru í óundirbúnum fyrirspurnatíma hvort ekki væri hægt að einfalda þetta, þ.e. að fyrirtæki geti sótt um greiðslustöðvun á grundvelli farsóttarinnar. Þá svaraði hæstv. ráðherra því til að þetta yrði skoðað. Þess vegna finnst mér það vonbrigði að tækifærið núna, þegar þetta frumvarp er lagt fram skuli ekki hafa verið nýtt til að koma því inn eða a.m.k. leysa þá óvissu sem ríkir um það hvort þetta tiltekna atriði, veirufaraldur, falli undir skilyrðin um að sækja um greiðslustöðvun.

Þetta er eitthvað sem ég hefði viljað sjá í frumvarpinu og þess vegna vildi ég minna sérstaklega á það hér. Greiðslustöðvun er úrræði sem gæti gagnast mörgum og væri tiltölulega einfalt ef veirufaraldur félli undir skilyrðin um það. Ég tel ákaflega mikilvægt, herra forseti, að stjórnvöld íhugi þetta vandlega og komi með þá breytingu, sem hefði verið hægt að gera í þessu frumvarpi, sem allra fyrst. Ég vil hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til þess og vona að við fáum fréttir af því fljótlega.

Í þessari umræðu voru rakin tilmæli frá Hagsmunasamtökum heimilanna, sem verða væntanlega í formi umsagnar þegar málið verður komið til nefndarinnar. Þar kemur fram hörð gagnrýni, einkum á 10. og 12. gr. sem ég nefndi í andsvari og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason kom einnig réttilega inn á í andsvari. Ég vil hvetja nefndina til að fara algerlega ofan í saumana á þessum tveimur ákvæðum, 10. og 12. gr., og þeim athugasemdum sem koma frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Þetta eru mjög réttmætar og góðar athugasemdir sem er mjög brýnt að verði farið gaumgæfilega yfir í starfi nefndarinnar.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að það er áhyggjuefni, eins og kom fram í málflutningi hæstv. ráðherra, að frumvarpið hafi verið unnið í flýti. Það er því miður hætta á því að undir þeim kringumstæðum verði gerð mistök sem á endanum koma til með að bitna á þeim borgurum landsins sem löggjöfin snertir. Við sjáum heimili og fyrirtæki sem gætu lent í vandræðum vegna þess að ekki er nógu vel vandað til þessarar lagasetningar. Þess vegna þarf að fara mjög gaumgæfilega yfir málið í nefndinni og velta upp öllum möguleikum og álitaefnum og kalla til alla þá sérfræðinga sem hægt er til að fá álit á frumvarpinu. Það er afar brýnt svo nefndarmenn geti glöggvað sig á því sem best og komið verði í veg fyrir handvömm í þeirri vinnu.

Að öðrum kosti vil ég segja að það eru vissulega hlutir í frumvarpinu sem eru ágætir en það eru hins vegar atriði, sem ég hef nefnt og farið í, sem er mjög mikilvægt að fara yfir. Búið er að lýsa miklum áhyggjum af 10. og 12. gr. sem ég nefndi réttilega og verð að orða það þannig að í raun sé verið að greiða götu kröfuhafa til að framkvæma aðfarir og nauðungarsölur á auðveldari hátt en nokkru sinni fyrr, eins og segir í tilmælum Hagsmunasamtaka heimilanna. Það eru hörð orð, hörð gagnrýni. Hæstv. ráðherra hefur reynt að svara þessu, að þetta sé ekki rétt. Ég hef ekki séð þann vinkil. Ég nefndi það sérstaklega í andsvari áðan að það eru mörg lönd að stöðva allar nauðungarsölur þar til ástandið breytist. Að sjálfsögðu eigum við að gera það líka. Við eigum ekki að einfalda leiðir fyrir kröfuhafa, það er af og frá. Það verður að koma í veg fyrir það. Hæstv. ráðherra segir að þetta sé misskilningur. Ég ætla að vona að það sé rétt, ég er ekki búinn að sjá það. En þetta er eitthvað sem verður að fara vandlega yfir í nefndinni og ég óska nefndinni góðs gengis í þeirri vinnu. Menn verða samt sem áður að flýta sér hægt vegna þess að það má ekki gera mistök í þeirri vinnu.

Herra forseti. Við verðum að muna það að heimilin í landinu eiga ekki að þurfa að gjalda fyrir þann veirufaraldur sem dundi svo skyndilega á okkur. Það má ekki koma til þess að nokkur einasta fjölskylda missi heimili sitt vegna faraldursins. Um það snýst málið. Það á að sjálfsögðu að vernda heimilin í þessum erfiðleikum en ekki greiða götu kröfuhafa í þeim efnum.