150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[17:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hún var með ólíkindum, þessi ræða hæstv. ráðherra sem situr hér í hliðarsal og kemur svo í ræðustól í andsvör við aðra þingmenn og kvartar yfir því að þeir séu að gera henni upp skoðanir eða leggja henni orð í munn. Akkúrat það sama gerir ráðherrann. Hún segir að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sé á móti þeim greinum sem hann taldi upp áðan (Gripið fram í.) og sagði að þyrftu betri umræðu og umfjöllun. Ég held að ráðherrann ætti að hlusta betur loksins þegar hún kemur inn í þingið. Hún kemur með frumvarp, hæstv. forseti, sem á að taka á fjöldatakmörkunum. Loks þegar verið er að taka af fjöldatakmarkanir kemur ráðherrann hér og ætlar að bæta rafræna stjórnsýslu til að létta á þeim sem hafa verið með fjölda fólks í vinnu hjá sér, þegar það eru nokkrir dagar í að það eigi að létta á takmörkunum. Hvers vegna kom þetta frumvarp ekki fyrr? Hvað hefur ráðherrann eiginlega verið að gera? Varla hefur tekið allan þennan tíma að gera þær örfáu breytingar sem eru í þessu frumvarpi. Það er hreint með ólíkindum hvernig ráðherrann bregst við. Hún kemur hingað upp með einhverja laumufarþega í þessu plaggi, ætlar að lauma inn breytingum til langframa þegar við erum að hleypa málum í gegn sem tengjast Covid-faraldrinum og svo hótar hún þingmönnum með orðunum: Þá kem ég bara með þetta aftur. Að sjálfsögðu kemur ráðherrann með þetta aftur ef þessu verður ekki breytt. (Dómsmrh.: Kommon.) En við hljótum að gera þá kröfu til hæstv. ráðherra að gefinn sé tími til að fara yfir þær breytingar sem eiga að vera til langframa, að þær fái meiri tíma í nefnd. Þar af leiðandi er það algjörlega í boði ráðherra ef frumvarp hennar tefst í þinginu, vegna þess að hún er með breytingar sem eru til langframa í frumvarpinu. Nefndirnar þurfa að fá gesti, slíkar breytingar þurfa yfirlegu, það þarf að tala um þær. Það er enginn að tala um að menn séu endilega á móti þeim. En til upplýsingar fyrir ráðherrann þá vilja sum okkar hér fjalla um málið í þinginu og gera það vandlega.