151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirgripsmikla ræðu og skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál og sannarlega af ýmsu að taka sem hægt væri að spyrja um þar eða gera að umfjöllunarefni. Ég vil byrja á að koma með þá gagnrýni að mér finnst kaflinn um öryggis- og varnarmál vera alveg gríðarlega þröngur. Mér finnst hann ekki vera í takt við þróunarsamvinnustefnu Íslands sem er miklu víðtækari en það sem snýr að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum sem við í Vinstri grænum gerðum fyrirvara við á sínum tíma í þjóðaröryggisstefnunni. Það kemur fram miklu fyrr í skýrslunni hvernig Ísland vill leggja áherslu á öruggari og betri heim með öðrum aðferðum, svo sem með því að tryggja mannréttindi, frið, kvenfrelsi, útrýma fátækt og annað slíkt. Þannig að mér finnst þessi kafli vera svolítið þröngur. En gott og vel. Í honum er hins vegar fjallað aðeins um NPT-samninginn og að endurskoðun á honum fari fram. Ég hef talað fyrir því að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um að banna kjarnorkuvopn. En mig langar að spyrja, vegna þess að nú hafa Bretar til að mynda verið að endurnýja Trident-kjarnorkukafbátana sína og brjóta þannig í bága við NPT-samninginn, sem þó er talað um hérna að sé leiðin sem mér heyrist hæstv. ráðherra vilja fara: Hvernig hefur hæstv. ráðherra á sínum vettvangi (Forseti hringir.) brugðist við þessari grafalvarlegu stöðu þar sem ein af nágrannaþjóðum okkar er að auka við kjarnorkuflota sinn og brjóta gegn þessum mikilvæga afvopnunarsamningi?