151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[18:16]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigríði Á. Andersen að tala hér um viðbrögð Kína við skrifum íslenskra borgara og ég held að það sé hárrétt hjá henni að við þurfum ávallt að halda vörð um tjáningarfrelsið og koma þeim skilaboðum á framfæri við önnur ríki. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til dáða í þeim efnum þegar bandaríski utanríkisráðherrann og sá rússneski koma hingað til okkar í maí, að taka það upp við utanríkisráðherra Rússlands sömuleiðis vegna mannréttindabrota þar í landi.

Ég er hér í seinni ræðu minni og hef ekki mikinn tíma en mig langar til að minnast á Evrópu og samskipti okkar við Evrópu. Þó svo að við höfum verið í umræðu áðan um skýrslu hæstv. ráðherra um framkvæmd EES-samningsins þá langaði mig líka til þess, vegna þessarar stóru skýrslu um utanríkismál, að fjalla aðeins um samskipti okkar við Evrópu. Eins og við vitum er Evrópa stærsta markaðssvæði okkar. Evrópa er sömuleiðis sögulega og menningarlega það svæði sem stendur okkur næst og þaðan koma í raun og veru þeir alþjóðasamningar sem skipta gríðarlega miklu máli, bæði EES-samningurinn og sömuleiðis líka samningar Evrópuráðsins. Þá er ég að tala um samninga á borð við Istanbúl-samninginn sem mætir mjög miklu bakslagi núna í fyrrum ríkjum Austur-Evrópu, því miður, og það er mikil atlaga að honum og rangfærslur í þeim ríkjum, meira að segja er það drifið af hálfu stjórnvalda í löndum á borð við Pólland, Ungverjaland, Slóvakíu og Búlgaríu þegar kemur að Istanbúl-samningnum og um þau gildi sem hann snýst um, sem eru réttindi kvenna, að koma í veg fyrir heimilisofbeldi og samræma aðgerðir aðildarríkjanna 47 að Evrópuráðinu þegar kemur að jafnréttismálum kynjanna. Ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra mjög til dáða í því að halda á lofti þeim gildum sem Istanbúl-samningurinn hverfist um.

Mig langar sömuleiðis til þess að hvetja okkur til dáða og að við stígum fastar til jarðar þegar kemur að hagsmunagæslu okkar vegna EES-samningsins. Þó svo að bætt hafi verið úr að einhverju leyti á þessu kjörtímabili þá þurfum við svo miklu meiri fjármuni í hagsmunagæslu okkar í Evrópu. Það hefur sýnt sig að það borgar sig að vera með góða og virka hagsmunagæslu í Evrópu gagnvart ESB og um framkvæmd EES-samningsins. En við sjáum það sömuleiðis að þétt samband við ESB og samkomulag Íslands við ESB hvað varðar samninga um bóluefni hafa skipt sköpum fyrir okkur hér þegar kemur að bólusetningum. Það sýnir líka hvað þetta samþætta samstarf og samvinna er okkur mikilvæg.

Ég vil árétta að ESB er sömuleiðis að koma fram með samræmdar aðgerðir í loftslagsmálum, í málefnum flóttamanna og í viðbrögðum við Covid-faraldrinum út frá efnahagssjónarmiðum. Við höfum allt að vinna að vera í góðu og þéttu samstarfi við Evrópu sem er ekki síst byggt á þeirri evrópsku sögu og menningu sem við eigum öll sameiginlega og þurfum að minna okkur reglulega á og sömuleiðis þá gagnkvæmu hagsmuni sem um er að ræða í evrópskri samvinnu og samstarfi.

Ég vil líka nefna, af því að ég náði því ekki í fyrri ræðu, að ég er ákaflega glöð sem fráfarandi formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og varaforseti Evrópuráðsþingsins að sjá loksins á þessu ári að við höfum endurvakið sendinefnd Íslands í Strassburg gagnvart Evrópuráðsþinginu og er það gert í aðdraganda formennsku okkar árið 2022, sem ég bind miklar vonir við. Evrópuráðið er gríðarlega mikilvægt þegar kemur að mannréttindum og eins og ég talaði um í fyrri ræðu minni þá eru mannréttindi farin að skipa æ meiri og stærri sess í alþjóðamálum. Mannréttindadómstóllinn í Strassborg er djásnið í krúnunni þegar kemur að Evrópuráðinu og við eigum að standa vörð um þann dómstól og þá sáttmála og samninga sem þaðan koma.(Forseti hringir.)

Að öðru leyti vil ég þakka kærlega fyrir þessa skýrslu og þessar umræður hér í dag og tel þær vera góðs viti fyrir framtíðina.